Innlent

Hefur ekki raun­veru­legan á­huga á Bessa­stöðum þrátt fyrir fal­leg orð Hall­gríms

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hvalveiðar
Hvalveiðar Vísir/Arnar

Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur, væri prýðilegur forsetaframbjóðandi að mati Hallgríms Helgasonar rithöfundar. Hann talar fyrir því að Katrín fari fram í færslu á Facebook-síðu sinni.

Sjálf segist Katrín ekki hafa hugleitt möguleitt framboð af neinni alvöru, en þakkar fyrir falleg orð í sinn garð.

Hallgrímur er ekki fyrsti þjóðþekkti listamaðurinn sem hvetur annan þjóðþekktan einstakling til að fara í forsetaframboð. Á dögunum birti tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens færslu á Facebook þar sem hann sagðist vilja sjá rithöfundinn Ólaf Jóhann Ólafsson á Bessastöðum. Hallgrímur segir, með fullri virðingu fyrir Bubba og Ólafi, að það sé kominn tími á að kona sitji í forsetastól, og að þá sé Katrín ofarlega í huga.

„Katrín Oddsdóttir hefur allt í djobbið, gáfuð, skelegg, geðgóð, óþreytandi, réttsýn, hjartahlý, málgóð, jákvæð, fögur og glæsileg. Sannur kvenskörungur á hárréttum aldri. Hún hefur sterkan bakgrunn í réttindabaráttu, réttlætisbaráttu og umhverfisvernd fyrir utan að hafa sýnt ódrepandi elju í stjórnarskrármálinu. Þá hefur hún viðamikla reynslu af viðburðum ýmiskonar, sem skipuleggjandi og hjónavígslukona. Og sjálfsagt er ég að gleyma einhverju mikilvægu,“ segir Hallgrímur.

„Í raun hefur hún starfað við það undanfarin ár að vera samviska þjóðarinnar. Við yrðum stolt þjóð með þessa glæstu og víðsýnu réttlætishetju á Bessastöðum.“

Í samtali við fréttastofu segist Katrín ekki vera að hugleiða forsetaframboð.

„Nei, ekki af einhverri alvöru, en ég hef oft heyrt einhvern nefna það. Mér þykir ótrúlega vænt um það að einhverjum þyki ég frambærileg til að fara fyrir hönd þjóðarinnar,“ segir Katrín.

Hún segist lifa mjög skemmtilegu lífi og telur sig vera að gera mikið gagn þar sem hún starfi í dag. „Ég held ég hafi því ekki raunverulegan áhuga á að taka þetta skref, en mér þykir mjög vænt um þetta, og þetta voru falleg orð sem hann Hallgrímur hafði um mig.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×