Toppliðið hélt sigur­göngunni á­fram gegn Alberti og fé­lögum

Albert Guðmundsson spilaði allan leikinn í kvöld.
Albert Guðmundsson spilaði allan leikinn í kvöld. Francesco Scaccianoce/Getty Images

Genoa, lið Alberts Guðmundssonar, mátti þola 2-1 tap gegn toppliði Inter á San Siro í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld.

Inter hefur verið á fljúgandi siglingu undanfarna mánuði og liðið hafði unni ellefu leiki í röð í öllum keppnum fyrir leik kvöldsins. Inter tapaði síðast stigum í ítölsku deildinni þann 29. desember á síðasta ári þegar liðið gerði 1-1 jafntefli gegn einmitt Genoa, þar sem Albert lagði upp mark Genoa.

Alberti og félögum tókst þó ekki að stöðva sigurgöngu Inter í þetta skipti. Heimamenn fóru með 2-0 forystu inn í hálfleikshléið eftir mörk frá Kristjan Asllani og Alexis Sanchez, en sá síðarnefndi lagði upp fyrra markið og skoraði svo sjálfur úr vítaspyrnu.

Johan Vasquez minnkaði svo muninn fyrir Genoa snemma í síðari hálfleik, en nær komust gestirnir ekki og niðurstaðan varð 2-1 sigur Inter.

Inter trónir því enn á toppi ítölsku deildarinnar með 72 stig eftir 27 leiki, 15 stigum meira en Juventus sem situr í öðru sæti. Genoa situr hins vegar í 12. sæti með 33 stig og siglir nokkuð lygnan sjó um miðja deild.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira