Handbolti

Vilja króatíska goð­sögn í stað Dags

Sindri Sverrisson skrifar
Ivano Balic í leik á móti íslenska landsliðinu.
Ivano Balic í leik á móti íslenska landsliðinu. Vísir/AFP

Japanska handknattleikssambandið virðist hafa fundið þjálfara til að fylla í skarðið sem Dagur Sigurðsson skildi eftir sig þegar hann tók við landsliði Króatíu.

Undir stjórn Dags tryggði Japan sér óvænt sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar með því að vinna undankeppnina í Asíu síðasta haust. Hann kom forráðamönnum japanska sambandsins hins vegar í opna skjöldu með því að vilja rifta samningi sínum og taka við Króatíu, sem Dagur mun síðar í þessum mánuði reyna að koma einnig á Ólympíuleikana.

Japanska sambandið hefur því þurft að hafa hraðar hendur við að finna arftaka Dags og samkvæmt króatíska miðlinum 24sata er króatíska goðsögnin Ivano Balic efstur á lista.

Hinn hárprúði Balic, sem er 44 ára, var lengi á meðal allra bestu leikmanna heims og var til að mynda í heimsmeistaraliði Króata árið 2003, og ólympíumeistaraliðinu 2004 þar sem hann var valinn besti leikmaðurinn.

Sem þjálfari hefur Balic verið aðstoðarþjálfari króatíska landsliðsins, undir stjórn Hrvoje Horvat frá 2021 til 2023, og hann er núna í þjálfarateymi RK Split heima í Króatíu.

Samkvæmt 24sata er Balic með tilboð frá Japan og hugnast starfið en líkt og Dagur myndi hann áfram geta búið í heimalandi sínu og ferðast nokkrum sinnum á ári til Japans. 

Miðillinn segir að þó að Japanir hafi aðeins dregið saman launakostnað vegna þjálfara og leikmanna landsliðsins þá muni Balic samt fá mjög góð laun samþykki hann tilboðið. Hann sé þó enn að íhuga málið.

Á heimasíðu japanska handknattleikssambandsins var í gær tilkynnt um sautján leikmanna landsliðshóp sem spila mun vináttulandsleiki við Egptaland og Argentínu í Montpellier í Frakklandi, 14. og 16. mars, en tekið fram að nýr þjálfari hefði enn ekki verið ráðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×