Innlent

Nýr for­seta­fram­bjóðandi stígur fram

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Agnieszka Sokolowska, verkefnastjóri hjá slökkviliðinu, er fædd í Póllandi en hefur búið á Íslandi síðastliðin sautján ár. Hún hefur komið víða við, starfað sem túlkur, þjónustufulltrúi og bókasafnsvörður.
Agnieszka Sokolowska, verkefnastjóri hjá slökkviliðinu, er fædd í Póllandi en hefur búið á Íslandi síðastliðin sautján ár. Hún hefur komið víða við, starfað sem túlkur, þjónustufulltrúi og bókasafnsvörður. Vísir/Einar

Agnieszka Sokolowska, verkefnastjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og sjálfstætt starfandi túlkur, hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands fyrir forsetakosningarnar 2024.

Þetta kemur fram á vef Island.is fyrir rafræna meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð 2024. Opnað var fyrir fyrir rafræna söfnun meðmæla í dag og þar má sjá alla þá sem hafa boðið sig formlega fram til embættisins.

Agnieszka Sokolowska er fædd í Póllandi en hefur búið á Íslandi síðastliðin sautján ár. Hún starfar sem sjálfstætt starfandi túlkur og sem verkefnastjóri hjá slökkviliðinu en hefur áður unnið sem þjónustufulltrúi hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar og sem bókavörður hjá Borgarbókasafninu.

Áður boðið sig fram á þing og í sveitastjórn

Agnieszka greindi frá framboði sínu í færslu á Facebook í dag. Þar skrifar hún „Dear friends and foes. I decided to make an attempt to become the next president of Iceland. Would greatly appreciate your signatures, even if just for the kicks“ 

Á íslensku hljómar færslan svo: „Kæru vinir og óvinir. Ég hef ákveðið að gera tilraun til að verða næsti forseti Íslands. Ég yrði mjög þakklát fyrir ykkar undirskriftir, þó það sé bara til gamans gert.“

Þetta er ekki fyrsta framboð Agnieszku af því hún var í tíunda sæti á lista VG í sveitarstjórnarkosningum árið 2018 og í þriðja sæti hjá Sósíalistaflokknum í Suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningum árið 2021.

Agnieszka var einnig til umfjöllunar í fjölmiðlum árið 2022 þegar hún mótmælti veru Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, á Jafnréttisþingi ásamt hópi erlendra kvenna. Þær vildu meina að Sólveig Anna græfi undan þátttöku erlendra kvenna á vinnumarkaði og gáfu henni táknrænt rautt spjald fyrir það.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×