Innlent

Slapp við meiðsli á höfði og hrygg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var á flugi og fór á vettvang um leið og útkallið barst.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var á flugi og fór á vettvang um leið og útkallið barst. LHG

Mikil mildi var að rúmlega fertug kona slasaðist ekki lífshættulega þegar ekið var á kyrrstæðan bíl hennar á Suðurlandsvegi síðdegis á mánudag. Konan var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar sem fyrir hendingu var í loftinu á æfingu þegar útkallið barst.

Það var á fjórða tímanum eftir hádegið á mánudaginn sem Lögreglan á Suðurlandi óskaði eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar rétt austan við Hvítanes í V-Landeyjum. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði konan lagt Toyota Hilux jeppa úti í vegakanti til að aðstoða annan bíl.

Fólksbíl var ekið á kyrrstæða bílinn með þeim afleiðingum að konan slasaðist alvarlega í þann mund sem hún var að setjast inn í bílinn. Telja má mikla mildi að konan haif sloppið án meiðsla á höfði og hrygg. Þó eru fram undan töluverðar aðgerðir vegna meiðsla konunnar annars staðar á líkamanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi er málið til rannsóknar. Fram undan eru skýrslutökur yfir þeim sem voru á vettvangi slyssins. Engar upplýsingar fengust frá lögreglu um hvað varð þess valdandi að fólksbílnum var ekið á kyrrstæðan jeppann.

Mikið happ þykir að þyrla Landhelgisgæslunnar var á ferð og var búið að koma konunni á Landspítalann í Fossvogi rétt innan við klukkustund eftir að útkallið barst.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×