Viðskipti innlent

Hag­vöxtur 4,1 prósent í fyrra

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári var  raunaukning þjónustuútflutnings
Megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári var raunaukning þjónustuútflutnings Vísir/Vilhelm

Niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir síðasta ár benda til þess að hagvöxtur, það er breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, hafi numið 4,1 prósent. Áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu var 4.279 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í nýjum þjóðhagsreikningum á vef Hagstofunnar. Þar segir að á fjórða ársfjórðungi hafi hægt á vexti hagkerfisins en aukning landsframleiðslunnar mældist 0,6 prósent samanborið við sama ársfjórðung fyrra árs. Árstíðaleiðrétt breyting landsframleiðslunnar á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs mælist 0,9 prósent að raungildi.

Þá kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar að megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári hafi verið raunaukning þjónustuútflutnings um 9,8 prósent. Janframt skiluðu hagstæðari vöruviðskipti og aukin sam-og einkaneysla jákvæðu framlagi.

Þjóðarútgjöld, það er samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 1,2 prósent að raungildi samanborið 8,4 prósenta aukningu á milli 2021 og 2022.

Eldsumbrot höfðu áhrif

Þá segir í tilkynningu Hagstofu að þrátt fyrir að þjónustuútflutningur hafi verið megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári hafi orðið skýr viðsnúningur á fjórða ársfjórðungi. Hann megi rekja til eldsumbrota á Reykjanesi.

Þjónustuútflutningur á ársfjórðungnum dróst saman um 5,5 prósent að raunvirði eftir mikinn vöxt á fyrstu þremur ársfjórðungum. Á fjórða ársfjórðungi var einnig mikill samdráttur í vöruinnflutningi sem varð til þess að framlag vöru- og þjónustuviðskipta til landsframleiðslunnar var jákvætt á fjórðungnum.

Verulegur samdráttur í einkaneyslu

Þá kemur fram að einkaneysla hafi dregist saman um 2,3 prósent á fjórða ársfjórðungi að raunvirði frá sama tímabili árið og áður. Fyrir árið í heild er vöxturinn 0,5 prósent samanborið við 8,3 prósent vöxt árið þar á undan.

Fram kemur að það það sé minnsti vöxtur einkaneyslunnar frá árinu 2010 að undanskildu árinu 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn skall á.

Þeir liðir einkaneyslunnar sem drógust hvað mest saman á fjórða ársfjórðungi tengjast kaupum á ökutækjum, matvöru, fatnaði og skóm og áfengi auk þess sem einkaneysluútgjöld vegna ferðalaga erlendis sýna áframhaldandi samdrátt. Innlend neysla dróst almennt saman og væntingar heimilanna voru svartsýnni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×