Sport

Sögðu nei við ÓL-umsókn Manny Pacquiao

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hnefaleikagoðsögnin Manny Pacquiao hefði verið líklegur til afreka á Ólympíuleikunum.
Hnefaleikagoðsögnin Manny Pacquiao hefði verið líklegur til afreka á Ólympíuleikunum. Getty/Ezra Acayan

Hnefaleikakappinn Manny Pacquiao fær ekki að keppa á Ólympíuleikunum í París í sumar þrátt fyrir mikla pressu frá Filippseyjum.

Ólympíunefnd Filippseyja vildi að Pacquiao fengi eitt af aukasætunum í boði í hnefaleikakeppni leikanna en Alþjóða Ólympíunefndin sagði nei við því.

Pacquiao hætti að keppa sem atvinnumaður fyrir þremur árum síðan og var að vonast eftir því að fá að snúa aftur sem áhugamaður í París.

Ólympíunefnd Filippseyja sendi inn sérstaka umsókn en henni var hafnað þar sem að Pacquiao þykir ekki uppfylla kröfur Alþjóða Ólympíunefndarinnar sem allir hnefaleikakappar á leikunum þurfa að standast.

Kappinn er orðinn 45 ára gamall og er því of gamall til að fá að keppa í hnefaleikum á leikunum. Hámarksaldurinn er 40 ár.

Abraham Tolentino, forseti filippseysku Ólympíunefndarinnar, var mjög ósáttur við niðurstöðuna.

„Hann hefði tryggt meiri athygli og meiri áhuga á leikunum í París en við verðum að fylgja reglum IOC. Þetta er mikil synd af því hann hefði örugglega unnið til verðlauna og hefði kannski getað orðið okkar fyrsti Ólympíumeistari í hnefaleikum,“ sagði Abraham Tolentino.

Pacquiao varð heimsmeistari í átta þyngdarflokkum á sínum ferli og er talinn einn besti hnefaleikakappi sögunnar. Árið 2015 var hnefaleikabardagi hans og Floyd Mayweather kallaður boxbardagi aldarinnar en Mayweather vann hann.

Pacquiao vann 62 af 72 bardögum sínum frá 1995 til 2021. Tveir þeirra enduðu með jafntefli og hann tapaði átta sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×