Erlent

Stígur á bremsuna í mál­efnum inn­flytj­enda

Samúel Karl Ólason skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AP/John Woods

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, ætlar að draga úr fjölda innflytjenda sem fá að setjast að í Kanada. Trudeau hefur lengi hyllt innflytjendur sem flytja til Kanada en umfangsmiklar breytingar hafa orðið á viðhorfi almennings í Kanada varðandi málaflokkinn, samhliða skorti á húsnæði og auknu álagi á heilbrigðiskerfi landsins.

Faðir forsætisráðherrans, Pierre Trudeau, sem var einnig forsætisráðherra á áttunda áratug síðustu aldar barðist fyrir auknu flæði innflytjenda á sínum tíma og viðhorf Kanadamanna til innflytjenda hefur síðan þá verið mjög jákvætt. Það hefur þó breyst hratt á undanförnum árum.

Samhliða því hefur Kanadamönnum fjölgað verulega hratt og sérstaklega Kanadamönnum af erlendu bergi brotnu. Rúmlega tuttugu prósent allra kanadískra ríkisborgara fæddust í öðru landi.

Í frétt Reuters segir að viðhorf almennings varðandi innflytjendur hafi verið í hæstu hæðum árið 2020. Í lok árs 2023 hafði neikvæðni almennings ekki mælst meiri í að minnsta kosti þrjá áratugi.

Í október sögðu 44,5 prósent Kanadamanna að innflytjendur væru orðnir of margir og vísuðu flestir þeirra til skorts á húsnæði og hátt leiguverðs sem helstu ástæðuna fyrir því að þau væru þessar skoðunar.

Sjá einnig: Viðhorf Íra til innflytjenda að breytast hratt

Trudeau á á brattann að sækja, sé miðað við skoðanakannanir í Kanada, fyrir væntanlegar kosningar á næsta ári. Hann mælist töluvert á eftir Pierre Poilievre, leiðtoga Íhaldsflokksins. Trudeau þarf að vinna sér inn milljónir atkvæða, vilji hann verða forsætisráðherra í fjórða sinn.

Poilievre hefur ekki verið mjög málglaður um málefni innflytjenda í Kanada en sérfræðingur sagði í samtali við Reuters að hann þyrfti að vinna sér inn atkvæði fólks í þéttbýlum borgum landsins og þar væri mikið af innflytjendum sem hann hefði ekki efni á að reita til reiði.

Marc Miller, innanríkisráðherra Kanada, sagði í viðtali við Reuters í síðasta mánuði að yfirvöld hefðu misst tökin á flæði innflytjenda. Það þyrfti að beisla það aftur því Kanada væri ekki ónæmt fyrir þeirri pólaríseringu sem bersýnileg væri í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×