Sport

Fattaði ekki að hann hafði tryggt Chiefs sigur í Super Bowl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes er hér búinn að gera Mecole Hardman Jr. grein fyrir því að hann hafði tryggt Kansas City Chiefs liðinu sigur í Super Bowl.
Patrick Mahomes er hér búinn að gera Mecole Hardman Jr. grein fyrir því að hann hafði tryggt Kansas City Chiefs liðinu sigur í Super Bowl. Getty/Ezra Shaw/

Útherjinn Mecole Hardman upplifði stærstu stund ferilsins í nótt þegar hann tryggði Kansas City Chiefs sigur í Super Bowl leiknum. Hann var samt ekki alveg með á nótunum í leikslok.

Hardman skoraði snertimark í framlengingunni þegar Chiefs vann þremur stigum undir og varð að klára sóknina með því að koma stigum upp á töfluna. Patrick Mahomes fann hann í endamarkinu og leikurinn var þar með búinn.

Mahomes mætti inn í viðtalið hjá Hardman eftir leikinn og grínaðist með það að Hardman hafi ekki áttað sig á hvað hann hafði gerst.

„Má ég segja eina stutta og fyndna sögu,“ spurði Patrick Mahomes og hélt áfram: „Ég sendi snertimarkssendingu á þennan gæja hérna til að vinna leikinn. Hann hafði ekki hugmynd hvað hafði gerst og horfði bara á mig,“ sagði Mahomes.

„Ég sagði við hann: Við vorum að vinna Super Bowl. Hann hafði ekki hugmynd um það og fagnaði ekki einu sinni til að byrja með,“ sagði Mahomes.

„Ég datt bara alveg út,“ viðurkenndi Hardman.

Hinn 25 ára gamli Hardman var að vinna sinn þriðja titil með Mahomes en hann byrjaði þó ekki tímabilið með Chiefs. Eftir að Hardman vann titilinn með Kansas City í fyrra þá samdi hann við lið New York Jets.

Hardman fékk aftur á móti fá tækifæri hjá Jets og var á endanum skipt til Chiefs um miðjan október. Aðeins nokkrum mánuðum síðar hafði hann tryggt Chiefs og sér þriðja meistaratitilinn á aðeins fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×