Sport

Segist ekki vera meiddur en spilar ekki í kvöld

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kadarius Toney verður líklega ekki í leikmannahópi Kansas City Chiefs í kvöld.
Kadarius Toney verður líklega ekki í leikmannahópi Kansas City Chiefs í kvöld. Vísir/Getty

Útherjinn Kadarius Toney verður líklega ekki í leikmannahópi Kansas City Chiefs í leiknum um Ofurskálina í kvöld. Hann segist þó ekki vera meiddur líkt og forráðamenn liðsins halda fram.

Kadarius Toney var skipt frá New York Giants til Kansas City Chiefs fyrir tímabilið í fyrra og skoraði snertimark þegar lið Chiefs vann sigur á Philadelphia Eagles í Super Bowl í fyrra.

Síðustu vikur hefur hins vegar gustað um Toney. Hann hefur ekki spilað með Kansas City Chiefs síðan um miðjan desember og samkvæmt forráðamönnum liðsins hefur Toney verið frá vegna meiðsla.

Á myndbandi sem birtist á samfélagsmiðlum fyrir nokkrum dögum síðan segir Toney félag sitt vera að ljúga um meiðslin.

„Ég er ekki meiddur. Hlífið mér frá þessari vitleysu. Það eru engin meiðsli,“ sagði hann í myndbandi sem sent var út beint á Instagram.

Toney tjáði sig síðar um myndbandið og sagði það hafa verið klippt þannig að það liti út fyrir að hann væri að ráðast á klúbbinn og liðsfélaga sína. Hann sagðist einfaldlega aldrei hafa sagt neitt um Chiefs.

Síðan þá hafa verið vangaveltur um hvort Toney myndi spila í Super Bowl í kvöld og í kvöld greindi ESPN frá því að Toney yrði skilinn eftir fyrir utan leikmannahóp Chiefs. 

„Hann er að æfa. Við skulum sjá hvort hann verður klár,“ sagði þjálfarinn Andy Reid á blaðamannafundi í vikunni. Svo virðist ekki vera og Patrick Mahomes þarf því að finna einhverja aðra til að gefa á en Kadarius Toney.

Super Bowl verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 í kvöld og hefst upphitun fyrir leikinn klukkan 22:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×