Erlent

Gífur­legt magn af ís undir yfir­borði Mars

Samúel Karl Ólason skrifar
Svona lítur yfirborðið yfir MFF út. Talið er að þarna undir megi finna mikið magn af ís.
Svona lítur yfirborðið yfir MFF út. Talið er að þarna undir megi finna mikið magn af ís. ESA/DLR/FU Berlin

Mögulegt er að finna megi gífurlegt magn af ís undir yfirborðinu á Mars. Talið er að ef ísinn yrði bræddur gæti hann þakið reikistjörnuna með 1,5 til 2,7 metra djúpu hafi.

Þetta kemur fram í grein sem birt var á vef Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) í gær. Greinin byggir á nýjum rannsóknum sem ætlað var að svara rúmlega fimmtán ára gamalli spurningu.

Árið 2007 greindu tæki geimfarsins Mars Express að undir yfirborðinu við miðbaug Mars mætti finna eitthvað efni, sem næði á allt að 2,5 kílómetra dýpi. Þessi efnasamstæða var á ensku kölluð Medusae Fossae Formation eða MFF og reyndist ómögulegt að segja hvaða efni væri þarna undir yfirborðinu.

Miðað við gögn frá ratsjá Mars Express er talið að íslögin séu undir þykku lagi af ryki.CReSIS/KU/Smithsonian Institution

Talið var mögulegt að þarna væri mikið af ryki, ösku eða annars konar jarðlög.

Nú telja vísindamenn ESA sig hafa fundið svör og er talið að þarna sé um ís að ræða. Þá er talið að íslagið sé mun þykkara en áður hefur verið talið og nái niður á allt að 3,7 kílómetra dýpi.

Svarið fannst einnig með Mars Express en ratsjá geimfarsins skilaði merkjum sem líkjast mjög merkjum af þykkum lögum af ís og þá hafa sambærileg merki einnig greinst undir yfirborðinu á pólum Mars, þar sem vitað er að finna má töluvert magn af ís.

Þá verða lögin ekki þykkri eftir því sem dýpra nær og þykir það renna stoðum undir kenningar um að þarna sé ís, þar sem jarðlög yrðu þykkri undir eigin þyngd.

Hér á þessu hæðarkoti má sjá hvar á Mars MFF er staðsett.ESA

Mikilvægt fyrir mannaðar geimferðir

Mars virðist nú skraufaþurr reikistjarna en þar má finna fjölmörg ummerki fljótandi vatns á árum áður. Má þar nefna forna árfarvegi, sjávar- og vatnsbotna og dali sem greinilega hafa mótast af fljótandi vatni.

Þá hefur ís fundist á pólum Mars og víðar undir yfirborðinu.

Colin Wilson, yfirmaður vísindastarfs Mars Express og ExoMars Trace Gas Orbiter segir að verði staðfest að um ís sé að ræða í MFF gæti það breytt skilningi manna á sögu Mars. Þá yrði svæðið sérstaklega spennandi vettvangur fyrir frekari vísindastörf, hvort sem það yrði með þjörkum eða seinna meir ef og þegar menn verða sendir til Mars.

Ís yrði þar að auki sérstaklega mikilvægur fyrir mannaðar geimferðir til mars þar sem hægt yrði að nota hann til að drekka vatn og til að búa til eldsneyti á Mars. Lenda þarf mönnuðum geimskipum, þegar þar að kemur, við miðbaug Mars og því er mikilvægt að finna þar vatn.

Ólíklegt er hins vegar að hægt verði að nálgast ísinn, sé um ís að ræða, á næstu áratugum, þar sem hann situr á hundruð metra dýpi undir ryki.


Tengdar fréttir

Ekkert mannað geimskot til tunglsins á þessu ári

Forsvarsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) tilkynntu í gær að næsta geimskoti Artemis-áætlunarinnar verði frestað til næsta árs. Artemis 2 átti að eiga sér stað á þessu ári en þá átti að senda þrjá geimfara á sporbraut um tunglið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×