Sport

Sex­tándi heims­meistara­titillinn í höfn: „Ég er ekki kominn með leið á að vinna“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Magnus Carlsen tryggði sér í dag heimsmeistaratitilinn í hraðskák.
Magnus Carlsen tryggði sér í dag heimsmeistaratitilinn í hraðskák. Vísir/Getty

Magnus Carlsen tryggði sér í dag heimsmeistaratitilinn í hraðskák í fimmta sinn. Þetta er sextándi heimsmeistaratitill hins rúmlega þrítuga Norðmanns.

Magnus Carlsen er efsti maður heimslistans í skák og hefur verið besti skákmaður heims síðustu árin. Hann er fæddur árið 1990 og því aðeins þrjátíu og þriggja ára gamall en hefur engu að síður raðað inn titlum á sínum ferli. Hann varð stórmeistari 13 ára og tryggði sér fyrsta heimsmeistaratitilinn í skák árið 2013. 

Í dag bætti Carlsen enn einni rósinni í hnappagatið þegar hann varð heimsmeistari í hraðskák. Mótið fór fram í Samarkand í Úsbekistan og tapaði Carlsen ekki einni einustu viðureign. 

„Þetta hefur mikla þýðingu og ég er mjög glaður. Ég vildi þetta mikið og er ekki kominn með leið á því að vinna,“ sagði Carlsen í samtali við norska ríkissjónvarpið NRK þegar titillinn var í höfn.

Carlsen vann allar viðureignir sínar á mótinu og tryggði sér titilinn með sigri á indverska undrabarninu Rameshbabu Praggnanandhaa í lokaviðureigninni.

„Lykillinn var að ég vann fyrstu viðureignina í dag gegn Fedoseyev,“ sagði Carlsen en Vladimir Fedoseyev frá Rússlandi vann silfurverðlaun.

Þetta er í fimmta sinn sem hann vinnur þennan titil en hann hefur einnig orðið heimsmeistari í hefðbundinni skák í fimm skipti og í atskák sex sinnum. Hann fær rúmar 8 milljónir í verðlaun fyrir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×