Veður

Enn snjó­flóða­hætta þótt veðrið hafi gengið niður

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kalt veður verður á jóladag.
Kalt veður verður á jóladag. vísir/vilhelm

Enn er snjóflóðahætta á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum, þó að veðrið hafi gengið niður í nótt eins og búist var við. Kuldinn verður nokkuð mikill.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er enn í gildi og hefur verið frá Þorláksmessu. Enn má búast við að vegir undir bröttum fjallshlíðum lokist vegna snjóflóða en ekki er talin hætta í byggð.

Samkvæmt spá Veðurstofunnar verður norðaustan 8-13 m/s með éljum norðan- og austanlands í dag, en bjart sunnan heiða. Þá dregur smám saman úr vindi og úrkomu og kólnar, en nú í morgunsárið er hiti víða nærri frostmarki á landinu.

Á höfuðborgarsvæði er búist við bjartviðri og frosti 1-8 stigs. Suðaustan 5-13 á morgun, snjókoma með köflum seinnipartinn og hiti nálægt frostmarki.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Austlæg átt, 8-15 m/s og snjókoma eða él, hvassast á Vestfjörðum, en þurrt vestantil fram eftir degi. Hiti víða 0 til 5 stig, en vægt frost norðvestantil.

Á fimmtudag:

Norðaustan 5-13 m/s og snjókoma eða él norðvestantil, en annars bjart með köflum. Frost 0 til 12 stig, kaldast norðaustanlands.

Á föstudag:

Fremur hæg breytileg átt og dálítil snjókoma, en úrkomulítið austantil. Áfram kalt í veðri.

Á laugardag:

Útlit fyrir hægt vaxandi norðaustanátt með éljum víðast hvar, en snjókomu sunnantil um kvöldið. Talsvert frost um land allt.

Á sunnudag (gamlársdagur):

Líklega ákveðin og köld norðanátt með snjókomu eða éljagangi víða um land, en úrkomulítið suðvestanlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×