Handbolti

Danir náðu bronsinu fyrir framan nefið á ná­grönnunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það var hart barist í Herning í dag.
Það var hart barist í Herning í dag. Vísir/EPA

Danir tryggðu sér rétt í þessu bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í handknattleik eftir eins marks sigur á nágrönnum sínum frá Svíþjóð.

Danir töpuðu fyrir Norðmönnum í undanúrslitum en Svíar fyrir Frökkum. Fyrirfram var búist við jöfnum og spennandi leik en Danir komust í 5-1 í upphafi leiks og héldu frumkvæðinu allan fyrri hálfleikinn.

Varnarleikur Svía var ekki eins öflugur og hann hefur oftast verið á mótinu og Danir áttu fremur auðvelt með að skora. Staðan í hálfleik var 18-15 Dönum í vil.

Í síðari hálfleik vaknaði sænska vörnin. Danir fóru mikið í að hnoða boltanum en Svíum gekk engu að síður illa að minnka muninn að einhverju ráði. Þar til um tíu mínútur voru eftir. Þá tókst Svíum loks að jafna og markvörðuinn Joanna Bundsen kom Svíum í 24-23 með marki yfir allan völlinn.

Það dugði hins vegar ekki til. Danir náðu vopnum sínum á ný og komust yfir. Þegar hálf mínúta var eftir voru Danir marki yfir og með boltann. Þær stilltu upp eftir aukakast og náðu að skora og tryggja sér þar með sigurinn. Sárabótamark Svía undir lokin hafði lítið að segja. Lokatölur 28-27 Dönum í vil sem fögnuðu bronsinu á heimavelli í Herning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×