Veður

Bætir í vind og kólnar þegar líður á daginn

Atli Ísleifsson skrifar
Gera má ráð fyrir suðvestlægum áttum og skúrum eða éljum næstu dag.
Gera má ráð fyrir suðvestlægum áttum og skúrum eða éljum næstu dag. Vísir/Vilhelm

Núna í morgunsárið er suðvestanátt á landinu, yfirleitt á bilinu tíu til átján metrar á sekúndu. Úrkomubakki sem gekk á land á suðvesturhorninu í nótt er á leið norður af landinu en í kjölfarið eru skúrabakkar að nálgast.

Á vef Veðurstofunnar segir að er líður á daginn bæti heldur í vind og kólni og skúrir breytast í él. Gera má ráð fyrir að hiti verði um og yfir frostmarki.

Gular viðvaranir eru í gildi víða um vestanvert landið fram á morgundaginn vegna suðvestanáttar og dimmra élja. Má gera ráð fyrir að staðbundið verði 15 til 23 metrar á sekúndu og að akstursskilyrði verði víða erfið.

Gular viðvaranir eru víða í gildi til klukkan sex í fyrramálið.Veðurstofan

Lítil fjölbreytni er síðan í veðrinu næstu daga, suðvestlægar áttir, skúrir eða él og hiti í kringum frostmark.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Suðvestan og sunnan 13-20 m/s og rigning eða snjókoma með köflum en úrkomuminna norðaustantil. Hiti 0 til 6 stig. Dregur úr vindi seinnipartinn og kólnar vestanlands með éljum.

Á laugardag: Suðvestan 8-15 m/s og él, en þurrt að kalla á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti nálægt frostmarki.

Á sunnudag: Suðlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en lengst af þurrt norðanlands. Fer að snjóa vestantil um kvöldið. Frost 0 til 5 stig en rétt yfir frostmarki við suðurströndina.

Á mánudag: Vestlæg átt og stöku él, einkum við ströndina. Frost 0 til 6 stig. Snjókoma eða slydda og hlýnar suðvestantil um kvöldið.

Á þriðjudag: Norðan og norðvestan átt með snjókomu eða él, en þurrt að kalla suðaustanlands. Kólnandi.

Á miðvikudag: Útlit fyrir norðlæga átt með snjókomu, en bjartviðri um sunnanvert landið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×