Veður

Djúp lægð nálgast og gular við­varanir taka gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir sem taka gildi á norðvestan-, vestan og sunnanverðu landinu næstu nótt.
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir sem taka gildi á norðvestan-, vestan og sunnanverðu landinu næstu nótt. Vísir/Vilhelm

Djúp lægð er nú stödd skammt austur af Hvarfi og hún nálgast landið í dag. Lægðin beinir til landsins hlýrri suðlægri átt, allhvössum vindi eða strekkingi og talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands, en vætu með köflum á norðausturhluta landsins.

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir sem taka gildi á norðvestan-, vestan og sunnanverðu landinu næstu nótt vegna þar sem hvassviðrisins og dimmra élja. Viðvaranirnar gilda fram á föstudagsmorgun.

Á vef Veðurstofunnar segir að hiti á landinu í dag verði yfirleitt á bilinu fjögur til tíu stig.

Veðurstofan

„Hægari vindur í kvöld og það kólnar með skúrum eða slydduéljum, en eftir miðnætti hvessir sunnantil á landinu.

Ákveðin suðvestanátt og éljagangur á morgun, yfirleitt allhvass eða hvass vindur en það getur slegið í storm á meðan éljahryðjurnar ganga yfir. Það verður þó þurrt að mestu á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti í kringum frostmark.

Á föstudag er svo útlit fyrir áframhaldandi stífa suðvestanátt og snjókomu, slyddu eða rigningu með köflum víða um land,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Suðvestan 13-23 m/s og éljagangur, hvassast í éljahryðjum. Yfirleitt þurrt á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag: Suðvestan og sunnan 13-20 og rigning eða snjókoma með köflum. Hiti 0 til 6 stig. Dregur úr vindi seinnipartinn og kólnar vestanlands með éljum.

Á laugardag: Suðvestan 8-15 og él, en þurrt að kalla á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti nálægt frostmarki.

Á sunnudag: Suðlæg átt og slydda eða snjókoma með köflum, en rigning sunnantil fram eftir degi. Hiti um eða yfir frostmarki.

Á mánudag: Vestan- og norðvestanátt og allvíða líkur á éljum. Frost 0 til 6 stig.

Á þriðjudag: Suðvestlæg átt og hlýnar með rigningu um landið vestanvert.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×