Handbolti

Frakk­land fyrstar til að leggja Noreg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Estelle Nze Minko var frábær í dag.
Estelle Nze Minko var frábær í dag. EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Frakkland vann Noreg með eins marks mun í lokaleik milliriðils II á HM kvenna í handbolta. Leikurinn skar úr um hvort lið myndi vinna riðilinn en bæði voru komin áfram í 8-liða úrslit.

Eftir gríðarlega spennandi leik fór það svo að Frakkland vann með minnsta mun mögulegum, einu marki. Lokatölur 24-23 og toppsætið Frakklands.

Estelle Nze Minko var markahæst í liði Frakklands með 6 mörk. Hjá Noregi voru Nora Mørk og Vilde Mortensen Ingstad markahæstar með 4 mörk hvor. Fyrr í dag vann Slóvenía fimm marka sigur á Austurríki, 32-27, og Angóla vann Suður-Kóreu með tveimur mörkum, 33-31.

Í milliriðli IV vann Holland átta marka sigur á Spáni, 29-21, og fer inn í 8-liða úrslitin með fullt hús stiga úr milliriðli. Hefði Spánn nælt í stig, í eintölu eða fleirtölu, hefði liðið komist áfram. Markahæst í liði Hollands var Zoë Sprengers með 6 mörk.

Brasilía endaði í 2. sæti eftir þriggja marka sigur á Tékklandi, lokatölur 30-27. Þá vann Argentína fimm marka sigur á Úkraínu, lokatölur 25-20. Brasilía, Tékkland og Spánn enduðu öll með sex stig en Brasilía fer áfram í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×