Innlent

Al­var­leg þróun ef stjórn­mála­menn þurfi að óttast öryggi sitt

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mótmælendur köstuðu glimmeri og birtu kröfur sínar á stórum borða.
Mótmælendur köstuðu glimmeri og birtu kröfur sínar á stórum borða. Aðsend

Forstöðumaður og formaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands harma „þá dapurlegu uppákomu“ sem átti sér stað á hátíðarfundi sem stofnunin ætlaði að halda í gær af tilefni 75 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

 Atvikið sem um ræðir eru mótmæli vegna stöðunnar í Palestínu en mótmælendur hentu glimmeri yfir utanríkisráðherra, Bjarna Benediktsson. Krafa þeirra var meðal annars að Ísland sliti viðskiptasambandi við Ísrael.

Í yfirlýsingu frá Alþjóðamálastofnuninni kemur fram að ætlun þeirra hafi verið að ræða mikilvægi mannréttinda í heiminum en að mótmælin hafi komð í veg fyrir að fundurinn gæti farið fram, auk þess að ráðist hafi verið að utanríkisráðherra.

„Það er alvarleg þróun í samfélagi okkar ef stjórnmálamenn þurfa að óttast um öryggi sitt þegar þeir koma fram á opinberum vettvangi. Eins verðum við að vona að mótmælin í gær vísi ekki á það sem koma skal, því að lýðræði og mannréttindi þrífast aldrei í samfélagi þar sem fólk vill ekki hlusta á skoðanir hvers annars,“ segir að lokum.

Utanríkisráðherra sagði frá því á Facebook fyrr í dag að hann hafi þurft að ræða mótmælin við dóttur sína. Hann sagði mótmælin hreint skemmdarverk.

Hópur 569 Íslendinga sendi í gær opið bréf á fjóra ráðherra og forseta Íslands þar sem þess er krafist að stjórnvöld slíti stjórnmála- og viðskiptasambandi við Ísrael, veiti öllum palestínskum umsækjendum tafarlaust alþjóðlega vernd og segi sig frá þátttöku í Eurovision verði Ísrael ekki vísað úr keppni.

Bandaríkin sögðu nei

Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær gegn tillögu þar sem krafist er vopnahlés á Gasa. Fimmtán ríki eiga sæti í öryggisráðinu.

Síðastliðinn miðvikudag krafði Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, öryggisráðið formlega um viðbrögð við ástandinu á Gasa. Hann virkjaði 99. grein stofnsáttmála samtakanna en aðeins einu sinni áður hefur það verið gert.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×