Viðskipti innlent

Ballið búið hjá Taco Bell

Árni Sæberg skrifar
Helgi Vilhjálmsson eða Helgi í Góu eins og hann er oft kallaður. 
Helgi Vilhjálmsson eða Helgi í Góu eins og hann er oft kallaður.  Magnús Hlynur Hreiðarsson

Veitingastöðum alþjóðlegu keðjunnar Taco Bell, sem reknir hafa verið samhliða veitingastöðum KFC hér á landi, verður lokað að óbreyttu. Helgi Vilhjálmsson, sem ávallt er kenndur við Góu, segir sérfræðinga KFC á alþjóðavísu hafa bannað rekstur staðanna í sama húsnæði.

Glöggir viðskiptavinir Taco Bell og KFC hafa tekið eftir því að merkingar Taco Bell á stöðunum í Grafarholti og Hafnarfirði hafa verið teknar niður.

Helgi, sem rekið hefur KFC á Íslandi í rúm fjörutíu ár og Taco Bell frá árinu 2006, segir að ákvörðunin hafi ekki verið í hans höndum. „Við megum víst ekki vera með þessa staði lengur saman. Þetta eru sérfræðingar úti í heimi sem ráða þessu,“ segir Helgi en Taco Bell hefur deilt húsnæði með KFC hér á landi í fjölmörg ár. 

Reksturinn hafi gengið vel

Að sögn Helga er veitingastaðakeðjan því hætt í bili en tekur þó fram að verið sé að skoða málið. „Þetta er svolítið skrítið finnst mér eftir fjörutíu ár í þessu að við virðumst ekkert vita sem erum að vinna á gólfinu bara þeir sem koma úr skólunum,“ segir Helgi og bætir við að þeir hafi ekki verið spurðir álits varðandi breytt fyrirkomulag. 

Helgi segir reksturinn hafa gengið vel og að fólki hafi fundist gott að hafa staðina saman enda séu langanir fólks misjafnar. „Þetta er leiðinlegt fyrir okkar föstu kúnna því þetta hefur þótt sniðugt með.“ 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×