Fótbolti

„Held að það veiki klár­lega stöðu Eriks ten Hag“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag er á sínu öðru tímabili sem knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag er á sínu öðru tímabili sem knattspyrnustjóri Manchester United. getty/BSR Agency

Aron Jóhannsson og Ólafur Kristjánsson segja að það veiki stöðu Eriks ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, hversu slakir leikmennirnir sem hann hefur fengið til liðsins hafa verið.

United missti tvisvar niður tveggja marka forskot þegar liðið sótti Galatasaray heim í Meistaradeild Evrópu í fyrradag. Leikar fóru 3-3 og United er á botni A-riðils með einungis fjögur stig.

André Onana, markvörður United, gerði afdrifarík mistök í leiknum í Istanbúl og hefur verið afar mistækur í Meistaradeildinni í vetur. Aðrir leikmenn sem Ten Hag hefur fengið til United hafa heldur ekki slegið í gegn. Aron segir að sú staðreynd veiki stöðu Ten Hags.

„Alveg klárlega. Maður sér bara að margir leikmenn sem hann hefur fengið eru lánsmenn sem eru að koma og fara. Svo keypti hann Antony á hátt í hundrað milljónir, Onana á 50-60 milljónir og [Sofyan] Amrabat sem er ekki búinn að vera góður,“ sagði Aron í Meistaradeildarmörkunum. 

„Þessir tveir leikmenn sem hann er búinn að kaupa á svona rosalega mikinn pening, Antony og Onana, þurfa bara að standa sig. Þegar þú kemur inn í United á svona upphæð, sérstaklega markvörður, áttu ekki að fá 1-2 ár til reyna að verða góður. Þú átt bara að standa þig strax. Það er það sem maður býst við í United.“

Klippa: Meistaradeildarmörkin - Umræða um Man. Utd.

Ólafur tók undir orð Arons.

„Ég held að það veiki klárlega stöðu Eriks ten Hag. En það sem gerist líka, sem er ekkert sérstaklega gott fyrir Manchester United og stuðningsmenn þeirra er að fókusinn á það sem er raunverulega að fjarlægist það og yfir á þetta, bæði leikmannakaupin hjá Ten Hag og frammistöðu Onanas,“ sagði Ólafur. 

„En það er alveg ljóst að það er miklu meira og stærra að hjá Manchester United heldur en að Ten Hag hafi ekki hitt á rétta leikmenn.“

Umræðuna um Manchester United má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×