Fótbolti

Stjörnukonan verður heiðruð í Kanada í desem­ber

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erin McLeod hefur átt langan og flottan feril.
Erin McLeod hefur átt langan og flottan feril. Getty/Jeremy Reper

Stjörnukonan Erin McLeod er á leiðinni heim til Kanada í jólamánuðinum og fær að upplifa þar mjög sérstaka stund.

Erin er eiginkona Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur og var markvörður Stjörnunnar í Bestu deildinni síðasta sumar. Hún er líka ein reyndasta landsliðskona Kanada frá upphafi.

Kanadíska knattspyrnusambandið hefur tilkynnt að ætlunin sé að heiðra þrjár goðsagnir kvennalandsliðsins á landsleik Kanada í Vancouver í desember.

Leikmennirnir eru Erin McLeod, miðjumaðurinn Sophie Schmidt og framherjinn Christine Sinclair.

Schmidt spilaði 224 landsleiki fyrir Kanada frá 2005 til 2023 og skoraði í þeim 20 mörk. Hún setti landsliðsskóna upp á hillu eftir HM í sumar. Schmidt er næstleikhæsta kanadíska landsliðskona sögunnar.

McLeod spilaði 119 leiki fyrir Kanada frá 2002 til 2021. Hún spilaði alls nítján leiki á stórmótum, HM eða ÓL, fyrir Kanada. McLeod er sá kanadíski markvörður sem hefur oftast haldið marki sínu hreinu eða 49 sinnum í þessum 119 leikjum.

Sinclair tilkynnti á dögunum að þetta yrði hennar síðasta ár í landsliðinu en kanadíska sambandið sannfærði hana um að taka þátt í fjórum leikjum í desember sem verður eins konar kveðjuferðalag hennar um landið. Sinclair er markahæsta landsliðskona sögunnar en hún er með 190 mörk í 329 landsleikjum sem er bæði kanadískt met.

Kanadíska landsliðið spilar þessa fjóra leiki víðs vegar um Kanada eða í Montreal, Halifax, Victoria og loks í Vancouver.

Í lokaleiknum í Vancouver verður síðan kveðjuhátíð þar sem kanadíska þjóðin mun kveðja þessa þrjá leikmenn. Þær verða allar heiðraðar með viðhöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×