Viðskipti innlent

Wolt mætt í Hvera­gerði og Sel­foss

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Selfyssingar mega eiga von á sendlum frá Wolt á hjólunum sínum á næstunni.
Selfyssingar mega eiga von á sendlum frá Wolt á hjólunum sínum á næstunni. Vísir/Vilhelm

Heimsendingarþjónusturisinn Wolt hefur stækkað sendingarsvæði sitt og sinnir nú íbúum í Hveragerði og Selfossi. Wolt mætti í Reykjanesbæ í október. 

„Við höfum fengið frábærar móttökur hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi. Eftir að hafa breitt úr okkur um allt höfuðborgarsvæðið þá hófum við starfsemi í Reykjanesbæ í október og núna getum við loksins boðið leiftursnöggar heimsendingar fyrir heimili og fyrirtæki á Selfossi og í Hveragerði,“ segir Elisabeth Stenersen framkvæmdastjóri Wolt á Íslandi í tilkynningu.

Í upphafi séu Selfoss og Hveragerði sjálfstæð þjónustusvæði en svæðin verði mögulega sameinuð svo viðskiptavinir geti pantað vörur úr öðrum bænum yfir í hinn. 

Auk veitingastaða á borð við KFC, Takkó, Hipstur og Pylsuvaginn geta viðskiptavinir pantað nýskorin blóm frá Blómaborg, ís frá Bongó og bakkelsi og brauð frá Almari bakara. Í heildina býður Wolt heimsendingarþjónustu frá 24 fyrirtækjum á Selfossi og í Hveragerði.

„Allt frá því við hófum rekstur á Íslandi þá höfum við stefnt að því að bjóða þjónustuna sem víðast og að gefa Íslendingum sama aðgengi að heimsendingarþjónustu og þekkist víða í stórborgum. Móttökurnar á Selfossi og í Hveragerði eru frábærar. Við bjóðum núna heimsendingu frá nánast öllum veitingastöðum á svæðinu sem er alveg einstakt. Við erum líka spennt fyrir því að geta bætt fleiri stöðum við til að efla vöruúrval og stuðla að uppbyggingu fyrirtækjanna á svæðinu,“ segir Elisabeth.

Wolt hóf starfsemi í Reykjavík í byrjun maí. Hafnarfjörður og Mosfellsbær bættust við í ágúst og Reykjanesbær í október. Wolt segist nú ná til um 75 prósent þjóðarinnar eftir viðbótina í Hveragerði og Selfossi. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×