Viðskipti innlent

Veru­lega hægst á sölu flug­ferða Icelandair til Ís­lands

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Verulega hefur hægst á sölu á flugferðum Icelandair til Íslands næstu vikurnar miðað við það sem áður var áætlað vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Þær hafa ekki haft áhrif á flugsamgöngur um Keflavíkurflugvöll og flugáætlun Icelandair er óbreytt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. Þar segir að flug yfir vetrarmánuðina bókist seinna en sumarmánuðirnir og að núverandi ástand hafi haft neikvæð áhrif á tekjumyndun síðustu vikna ársins og er tekið fram að ferðamannamarkaðurinn til Íslands sé mikilvægur þáttur í tekjumyndun í nóvember og desember.

„Vegna þessarar stöðu hefur afkomuspá sem birt var 13. september sl. verið felld úr gildi og á meðan óvissa er enn uppi er ekki hægt að birta nákvæma afkomuspá fyrir árið í heild. Félagið gerir þó enn ráð fyrir að skila jákvæðri afkomu eftir skatta á árinu 2023,“ segir í tilkynningunni.

„Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa ekki haft nein áhrif á flugumferð til og frá Íslandi og við tökum vel á móti ferðamönnum. Atburðirnir hafa hins vegar haft mikil áhrif á líf Grindvíkinga og hugur okkar er hjá þeim,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Við höfum verið leiðandi flugfélag á Íslandi í áratugi og höfum mikla reynslu af því að takast á við náttúruöflin og höfum undirbúið okkur vel fyrir mismunandi sviðsmyndir. Við erum í góðu samstarfi við yfirvöld og vísindafólk sem fylgist náið með stöðunni og ef til breytinga kemur á flugáætlun munum við upplýsa farþega með okkar venjulegu samskiptaleiðum.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×