Viðskipti innlent

Guð­rún Ása frá heil­brigðis­ráð­herra til Kliníkurinnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðrún Ása Björnsdóttir.
Guðrún Ása Björnsdóttir.

Guðrún Ása Björnsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Kliníkurinnar Ármúla. Guðrún Ása hefur undanfarið eitt og hálft ár gegnt stöðu faglegs aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra en lætur nú af þeim störfum.

Hún mun hefja störf á nýju ári, að því er fram kemur í tilkynningu. Guðrún Ása er með BS-gráðu í lífefnafræði frá Háskóla Íslands, MB ChB-gráðu í læknisfræði frá Warwick-háskóla í Bretlandi og leggur stund á doktorsnám í læknisfræði við Háskóla Íslands.

Guðrún Ása er með sérfræðilæknaleyfi í lyflækningum og hefur víðtæka starfsreynslu innan heilbrigðiskerfisins. Hún hefur samhliða störfum sínum sem læknir sinnt rannsóknum og kennslu við Háskóla Íslands.

Guðrún Ása var Formaður félags almennra lækna, sat í stjórn Læknafélags Íslands og útgáfustjórn Læknablaðsins árin 2018 til 2020. Hún sat í læknaráði Landspítalans árin 2017 til 2020. Hún hefur setið í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum heilbrigðisráðuneytisins, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknafélag Íslands. Guðrún sat meðal annars í samninganefnd Læknafélags Íslands árin 2019 til 2021 og var formaður samninganefndar LÍ.

Guðrún Ása er gift Halldóri Benjamín Þorbergssyni forstjóra Regins. Þau eiga saman fjögur börn.

Sigurður tekur við stjórn dótturfélags

Guðrún Ása tekur við af Sigurði Ingibergi Björnssyni sem framkvæmdastjóri. Í tilkynningu segir að undir hans stjórn hafi Kliníkin dafnað og vaxið gríðarlega og starfsemin meira en þrefaldast. Sigurður lætur af framkvæmdastjórastarfinu þegar Guðrún tekur við á næsta ári og mun þá taka við stjórn dóttúrfélags Kliníkurinnar þar sem þróaðar eru hugbúnaðarlausnir sem nýtast fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að gera heilbrigðiskerfið einfaldara og skilvirkara.

Fram kemur í tilkynningunni að 23 sérfræðilæknar og 47 hjúkrunarfræðingar starfi hjá Kliníkinni auk sérhæfðra starfsmanna. Segir þar að starfsfólk leggi sig fram við að veita persónulega þjónustu með hagsmuni skjólstæðinga í öndvegi og að meginmarkmiðið sé að leggja grunn að auknum lífsgæðum til langs tíma.

Fram kemur að helstu sérsvið Kliníkurinnar séu tengd bæklungarlækningum, brjóstalækningum, efnaskiptaaðgerðum, kvensjúkdómalækningum, lýtalæknningum og meltingarlækningum. Kliníkin er með samning við Sjúkratryggingar Íslands um nokkra aðgerðarhópa og hefur unnið með stjónvöldum við að vinna niður biðlista eftir aðgerðum, meðal annars liðskiptaaðgerðum, að því er fram kemur í tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×