Sport

Hefur þénað milljarða í í­þrótt sinni en býr enn heima hjá mömmu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Joshua vill ekki yfirgefa mömmu sína og hún vill ekki yfirgefa húsið sem hún hefur búið alla tíð.
Anthony Joshua vill ekki yfirgefa mömmu sína og hún vill ekki yfirgefa húsið sem hún hefur búið alla tíð. Getty/Mark Thompson

Hnefaleikakappinn Anthony Joshua hefur þénað yfir sjö milljarða króna á glæsilegum ferli sínum en sagði frá því í nýju viðtali við Louis Theroux að þrátt fyrir auðæfin sín þá býr hann samt enn heima hjá mömmu sinni.

Joshua og móðir hans búa saman í tveggja herbergja íbúð. „Af hverju ætti ég að flytja út og skilja hana eftir eina,“ sagði Anthony Joshua við breska ríkisútvarpið.

Joshua er 34 ára gamall og varð Ólympíumeistari í hnefaleikum í London 2012. Hann hefur síðan unnið 29 af 32 atvinnumannabardögum sínum. Hann er mjög þekktur og vinsæll í Bretlandi og fær því mikið áreiti.

Alveg til ársins 2017 þá bjó Joshua reyndar í lúxusvillu fyrir utan London. Þá ákvað hann aftur á móti að flytja aftur heim til móður sinnar sem heitir Yeta Odusanya.

Nú sex árum síðar er hann enn ekki fluttur út.

„Ég bý enn hjá henni. Við ólumst upp í okkar eigin fjölskylduhúsi og þannig er okkar menning. Við styðjum foreldra okkar,“ sagði Joshua.

„Ætti ég kannski að flytja út fyrir stelpu? Fjölskyldan er það mikilvægasta. Þegar ég hef samband við stelpu þá er hún ekki aðeins að giftast mér heldur allri fjölskyldu minni,“ sagði Joshua.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×