Erlent

Scalise dregur fram­boð sitt til baka eftir inn­grip Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump steig fram í gær og sagði Scalise óhæfan sökum þess að hann hefði verið greindur með blóðkrabbamein.
Trump steig fram í gær og sagði Scalise óhæfan sökum þess að hann hefði verið greindur með blóðkrabbamein.

Þingmaðurinn Steve Scalise frá Louisiana hefur dregið sig út úr kosningum um næsta forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, eftir að honum mistókst að afla sér stuðnings harðlínu Repúblikana.

Scalise var tilnefndur eftir lokaðan fund og atkvæðagreiðslu þingmanna Repúblikanaflokksins á miðvikudag en vantaði töluvert upp á að tryggja sér forsetaembættið þegar á hólminn var komið.

Var það ekki síst vegna þess að margir stuðningsmenn keppninautar hans, þingmannsins Jim Jordan frá Ohio, neituðu að gefa sig og sameinast með flokkssystkinum sínum um að styðja Scalise.

Jordan naut stuðnings Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Fulltrúadeildin er nú sem lömuð, á sama tíma og fjöldi mikilvægra mála þarfnast úrlausnar bæði heima fyrir og á erlendri grundu. Scalise sagðist stíga til hliðar í þeirri von að einhverjum öðrum tækist að sameina Repúblikanaflokkinn.

Hann skaut á sama tíma á flokkssystkini sín og sagði suma ganga eigin erinda.

Þingmaðurinn Don Bacon frá Nebraska segir í samtali við New York Times að Scalise hafi sigrað í lokuðu kosningunni meðal þingmanna Repúblikana en engu að síður hafi sumir þeirra svikist undan þegar kom að því að kjósa þingforseta. 

„Ef þú verðlaunar slæma hegðun verður áframhald á henni,“ sagði hann um næstu skref.

Trump gerði illt verra þegar hann steig inn í umræðuna í gær og sagði Scalise óhæfan þar sem hann hefur greinst með blóðkrabbamein. „Steve er maður sem á í alvarlegum vanda af því að hann er með blóðkrabbamein. Ég veit ekki hvernig þú getur sinnt starfinu þegar þú ert að etja við svona alvarlegan vanda,“ sagði forsetinn fyrrverandi.

Jordan er talin munu freista þess í dag að tryggja sér forsetaembættið en á langt í land þar sem hann nýtur ekki stuðnings hófsamari Repúblikana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×