Innlent

Býður sig fram til for­seta Ungs jafnaðar­fólks

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir.
Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir. Aðsend

Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir hefur gefið kost á sér í embætti forseta Ungs jafnaðarfólks. Lilja Hrönn er 22 ára laganemi við Háskóla Íslands og nemi í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri, auk þess að vera varaforseti Ungs jafnaðarfólks.

Í tilkynningu segir Lilja Hrönn alla tíð hafa verið jafnaðarkona og síðustu þrjú ár tekið virkan þátt í starfi Ungs jafnaðarfólks, á vettvangi Rannveigar - Ungs jafnaðarfólks í Kópavogi, sem kosningastjóri Ungs jafnaðarfólks í Alþingiskosningunum 2021 og síðustu tvö ár í framkvæmdastjórn Ungs jafnaðarfólks. Þá hafi hún á liðnu starfsári gegnt embætti varaforseta Ungs jafnaðarfólks.

Landsþing Ungs jafnaðarfólks verður haldið í Reykjavík á laugardaginn.

„Ungt jafnaðarfólk hefur síðustu misseri verið áberandi hópur innan Samfylkingarinnar og hlaut ungt fólk innan flokksins til að mynda mjög gott brautargengi á landsfundi flokksins síðasta haust.

Það er mikilvægt að halda áfram öflugu starfi og mun ég, hljóti ég traust landsþings, leggja áherslu á áframhaldandi uppbyggingu félagsins og sterkt málefnastarf.

Bakslag í baráttu hinsegin fólks og lífskjör almennings sýnir okkur að samfélagið sem við búum í á langt í land hvað varðar jafnrétti og mun ég leggja áherslu á að Ungt jafnaðarfólk haldi áfram að beita sér fyrir þessum málum.

Sterkt málefnastarf byggir á því að vera bæði óhrædd við að gagnrýna núverandi stjórnvöld og að vera aðhald við flokkinn okkar. Við þurfum að vera róttæk og láta okkur málin varða,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×