Innlent

„Næ ekki ró vegna þess að ég er lyfja­laus“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íris Hólm segist eiga erfitt með svefn og daglegar athafnir enda fái hún ekki upp á skrifuð lyf sem ekki eru til á landinu.
Íris Hólm segist eiga erfitt með svefn og daglegar athafnir enda fái hún ekki upp á skrifuð lyf sem ekki eru til á landinu. Vísir

Íris Hólm Jóns­dóttir, söng-og leik­kona, segist vera reið, svekkt og pirruð. Hún gat ekki sofið í nótt þar sem heilinn er á yfir­snúningi sökum þess að lyfin sem Íris tekur gegn ADHD eru ekki til í landinu. Hún segist hugsi yfir um­mælum Óttars Guð­munds­sonar, geð­læknis, um ADHD.

Eins og greint hefur verið frá hefur ADHD lyfið Elvan­se, auk sam­heita­lyfja, verið ó­fáan­legt á landinu síðan í lok júlí. For­maður ADHD sam­takann hefur sagt lyfja­skortinn setja allt úr skorðum hjá ein­stak­lingum með greininguna. For­stjóri Lyfja­stofnunar hefur brýnt fyrir fólki að nota ekki annarra manna lyf.

Neyddist til að hætta „cold tur­k­ey“

„Hér sit ég, klukkan að ganga 1 um nótt og ég er reið. Ég er reið, svekkt og pirruð. Ég get ekki sofnað vegna þess að heilinn minn er á yfir­snúningi og ég næ ekki ró. Ég næ ekki ró vegna þess að ég er lyfja­laus,“ skrifar Íris Hólm í ein­lægri færslu á sam­fé­lags­miðlinum Face­book.

Hún segist því hafa neyðst til þess að hætta á lyfjunum sínum án alls undir­búnings, „cold tur­k­ey,“ eins og hún lýsir því.

„Ég átta mig ekki á því hvernig það getur orðið að stór hópur fólks standi núna uppi lyfja­lausir, fái ekki lyf sem þeim var ráð­lagt af læknum að taka.“

Kveðst hugsi yfir um­mælum Óttars

Íris segist hafa verið hugsi yfir um­mælum Óttars Guð­munds­sonar, geð­læknis, í Kast­ljósi. Óttar hefur áður skrifað grein í Lækna­blaðið þar sem hann segir ADHD lyf of­notuð á Ís­landi og gagn­rýnir að lög­leg með­ferð sé orðin al­gjör­lega stjórn­laus.

„Ég missti nánast allan á­huga á að hlusta þegar Óttar talaði um ADHD sem sjúk­dóm, sem að minni bestu vitund er rangt, enda ADHD flokkað sem tauga­röskun, ekki sjúk­dómur.“

Hún segist vera með nokkrar spurningar vegna mál­flutnings Óttars. Segir Íris meðal annars að ADHD sé ætt­geng tauga­röskun og spyr hún hvort það geti haft á­hrif í litlu sam­fé­lagi eins og á Ís­landi þar sem allir séu skyldir.

„Ok, þarna fer ég frjáls­lega með stað­reyndir, en ég spyr af al­vöru og kannski ein­göngu Kári sjálfur Stefáns­son geti svarað þessu. Er ADHD al­gengari röskun í Ís­lendingum en hjá öðrum þjóðum?“

Spyr hvort ekki sé eðli­legt að fólk sæki í lyf

Íris segist setja spurninga­merki við það hvort það sé í al­vöru raunin líkt og Óttar segi að fólk sækist eftir ADHD greiningu ein­göngu til þess að komast í am­feta­mín skyld lyf.

„Getur ekki bara verið að fólk sé að sjá já­kvæðar breytingar í lífi fólks þegar það kemst á rétt lyf? Gæti ekki verið að fólk myndi alveg eins vilja komast í greiningu og á lyf ef lyfið væri sam­sett úr ein­hverju allt öðru.

Ef ég væri með mí­greni og ég sæi vini mína og fjöl­skyldu­með­limi sem þjást af mí­greni öðlast betra líf vegna réttrar lyfja­með­ferðar, væri þá ekki eðli­legt að ég myndi vilja skoða þann kost fyrir mig sjálfa?“

Þá spyr Íris hvort það geti verið að aukin ADHD greining og aukin lyfja­notkun sé vegna þeirra ó­tal­mörgu for­eldra sem fari með börnum sínum í greiningar við­töl sem upp­götvi þar að allt sem passar við börn þeirra, passi við þau sjálf.

„Getur verið að aukin ADHD greining og sömu­leiðis aukin lyfja­notkun sé vegna þeirra ó­tal­mörgu stelpna og kvenna sem eru loks að fá greiningu á þessari röskun eftir MÖRG ÁR þar sem lækna­vísindin tóku stelpur og konur ekki með inn í dæmið; þær gátu ekki verið með ADHD.“

Þá spyr Íris að lokum hvort það geti verið að aukin ADHD greining og aukin lyfja­notkun geti verið stað­reynd þar sem fleiri full­orðnir greinist nú. „Eftir MÖRG ÁR þar sem lækna­vísindin töldu ADHD eldast af fólki og væri í raun „barna röskun?“

Íris bendir á að enginn vilji eiga erfitt með að gera hversdagslega hluti. Vísir

Óttast að taka þrjú skref aftur á bak

„Ég finn til með öllum þeim sem eru í svipaðri stöðu og ég. Það eru ekki bara á­hrifin af því að hætta að taka lyfin sín snögg­lega heldur er það líka óttinn við að taka 3 skref aftur­á­bak.

ADHD lömunin verður verri, at­hyglin við vinnu og nám verður erfiðari, á­reitið hefur verri á­hrif, þráðurinn verður styttri og svefn­leysið ó­bæri­legt.“

Íris segist ekki átta sig á því hvernig það geti orðið að stór hópur fólks standi nú uppi lyfja­laust og fái ekki lyf sem þeim var ráð­lagt af læknum að taka. Enginn vilji eiga erfitt með hvers­dags­lega hluti.

„Það vill enginn eiga erfitt með að koma hlutunum í verk. Meiri­hluti þeirra sem taka þessi lyf gerir það því það hjálpar þeim. En nú er staðan sú að meiri­hluti þeirra sem tekur þessi lyf stendur frammi fyrir lyfja­skorti og van­líðan. Hvað á að gera?! Hver er lausnin?!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×