Erlent

Reynir að blása lífi í korn­sam­komu­lag á fundi með Pútín

Kjartan Kjartansson skrifar
Erdogan (t.v.) og Pútín á fundi í Sotsjí árið 2021. Þeir hittast á sama stað í dag.
Erdogan (t.v.) og Pútín á fundi í Sotsjí árið 2021. Þeir hittast á sama stað í dag. AP//Vladímír Smirnov/Spútnik

Recep Erdogan, forseti Tyrklands, ætlar að freista þess að sannfæra Vladímír Pútín Rússlandsforseta um að endurlífga samkomulag um kornútflutning frá Úkraínu um Svartahaf þegar þeir hittast í dag. Rússar réðust á úkraínska kornflutningahöfn í morgun.

Sameinuðu þjóðirnar og Erdogan höfðu milligöngu um samkomulag á sem gerðu Úkraínumönnum kleift að flytja korn og annan varning út frá þremur höfnum við Svartahaf þrátt fyrir stríðið í fyrra. Markmiðið var að forða matvælaskorti í ríkjum Afríku, Miðausturlanda og Asíu sem eru háð korni frá Úkraínu og Rússlandi.

Pútín neitaði að framlengja samkomulagið í júlí. Síðan þá hafa Rússar ráðist ítrekað á hafnir og innviði sem tengjast kornútflutningi Úkraínumanna. Síðast í morgun sagðist úkraínski flugherinn hafa stöðvað 23 af 32 rússneskum drónum sem réðust á Odesa og Dnipropetrovsk-héruð. Reuters-fréttastofan segir að vöruhús og verksmiðjur hafi skemmst og kviknaði hafi í íbúðarbyggingum þegar brak úr drónunum hrapaði.

Pútín og Erdogan funda í Sotsjí við Svartahaf þar sem Rússlandsforseti á setur í dag. Samband þeirra er sagt gott þrátt fyrir að Erdogan hafi reitt Rússa til reiði með því að leyfa fimm úkraínskum herforingjum að snúa heim í sumar. Rússar tóku þá til fanga en samþykktu að afhenda þá Tyrkjum með því skilyrði að þeir yrðu þar á meðan stríðið geisaði enn.

Utanríkisráðherrar ríkjanna undirbjuggu jarðveginn fyrir fundinn á fimmtudag. Rússar eru þar sagði hafa lagt fram kröfur á hendur vestrænum ríkjum sem eru skilyrði þeirra fyrir því að kornflutningar geti haldið áfram um Svartahaf.


Tengdar fréttir

Umfangsmiklar árásir í nótt á báða bóga

Úkraínumenn gerðu í nótt víðtækar drónaárásir á svæði í Rússlandi. Í einni árásinni voru tvær flutningavélar sprengdar í loft upp á Pskov flugvellinum er í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá víglínunni í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×