Erlent

Schofi­eld sagður stefna á endur­komu á skjáinn og út­gáfu ævi­sögu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Phillip Schofield og Holly Willoughby stýrðu saman morgunþættinum This Morning á ITV. Nú virðist sem Schofield ætli að snúa aftur á skjáinn hjá keppinautunum í TalkTv.
Phillip Schofield og Holly Willoughby stýrðu saman morgunþættinum This Morning á ITV. Nú virðist sem Schofield ætli að snúa aftur á skjáinn hjá keppinautunum í TalkTv. Getty

Phillip Schofield, sem hætti hjá ITV í maí eftir skandal sem tengdist sambandi hans við yngri samstarfsmann, virðist ætla að endurreisa feril sinn með útgáfu ævisögu og endurkomu á sjónvarpsskjáinn á TalkTV.

Upp komst um ástarsamband Schofield við mun yngri karlmann sem vann á sjónvarpsstöðinni ITV í maí síðastliðnum. Samstarfsfélagar lýstu Schofield þá sem manni með miklar ranghugmyndir og fékk hann töluverða útreið í fjölmiðlum.

Fjöldi fólks tók einnig upp hanskann fyrir Schofield og nú virðist álit almennings í Bretlandi hafa snúist Schofield í vil á undanförnum vikum.

Schofield sagði í viðtali eftir að málið kom upp að hann hefði orðið fyrir gríðarlegu áreiti vegna málsins, hann sæi ekkert nema svartnætti fram undan og að hann teldi ferill sinn vera á enda. Það virðist þó ekki vera ef marka má nýjustu fréttir.

Ætlar að segja sína sögu sjálfur

Fjöldi breskra fjölmiðla hefur greint frá því að Schofield, sem stýrði morgunþáttunum This Morning við góðan orðstír í mörg ár, hafi átt í samræðum við stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar TalkTV, eins helsta samkeppnisaðila ITV, um mögulega stöðu á stöðinni.

Vinkona Schofield, Vanessa Feltz, sem vinnur á stöðinni á að hafa komið þeim viðræðum í kring eftir að hafa athugað hvort hann hefði áhuga. Það sást einmitt til þeirra tveggja fyrri í mánuðinum þar sem þau fengu sér að borða saman.

Þá greinir The Mirror frá því að Schofield hafi átt í viðræðum við nokkra bókaútgefendur, þar á meðal Hodder & Stoughton, um útgáfu æviminninga hans þar sem hann fer nánar út í morgunsjónvarpið, samband sitt við fyrrverandi samstarfsfélaga sinn Holly Willoughby og hvernig ferill hans hrundi.

Breskir miðlar herma að Schofield vilji fá að segja alla söguna sjálfur og um leið reyna að binda enda á hana með útgáfunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×