Totten­ham gekk frá Man United í síðari hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimamenn fagna.
Heimamenn fagna. EPA-EFE/ANDY RAIN

Þrátt fyrir að fyrri hálfleikur hafi verið markalaus þá var hann langt í frá leiðinlegur. Bæði lið ætluðu að sækja til sigurs og gestirnir voru sprækari framan af. Bruno Fernandes klúðraði algjöru dauðafæri fyrir Man United og þá vildu gestirnir fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Cristian Romero innan vítateigs en ekkert var dæmt. Þá skutu heimamenn í slá og stöng í sömu sókninni.

Allt kom fyrir ekki og staðan markalaus í hálfleik. Það tók heimamenn ekki langan tíma að koma boltanum í netið í síðari hálfleik. Á 49. mínútu barst boltinn á Dejan Kulusevski út á hægri vængnum, hann óð inn að marki þar sem bæði Alejandro Garnacho og Luke Shaw voru ekki vakandi á verðinum.

Sænski vængmaðurinn gaf svo fyrir markið, boltinn fór af Lisandro Martínez og barst þannig til Pape Matar Sarr sem þrumaði boltanum í netið. Staðan 1-0 fyrir heimamenn en þarna voru tæpar 50 mínútur eftir þökk sé löngum uppbótartíma leiksins. 

Örskömmu síðar átti Antony skot í stöngina fyrir gestina en þeir voru í raun aldrei líklegir til að jafna metin eftir að þeir lentu undir. Seinna mark Tottenham á 83. mínútu gerði því endanlega út um leikinn. Boltinn barst frá hægri til vinstri þar sem James Maddison gaf boltann inn á teig, þar tók Ben Davies skot í fyrsta sem Martínez ætlaði að hreinsa en endaði á að skófla í eigið net. Niðurstaðan sjálfsmark og staðan orðin 2-0, urðu það lokatölur leiksins.

Stuðningsmenn Man Utd geta huggað sig við að liðið var með hærra xG (vænt mörk) í dag og hefði að öllum líkindum átt að fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Það dugði þó ekki til í dag og því er það Tottenham sem er komið í 4. sæti með 4 stig á meðan Man Utd er með 3 stig í 10. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira