Innlent

Gögn þurfi að vera skiljanleg á erlendri grundu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Anna Hrefna Ingimundardóttir er starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um enskunotkun samtakanna sem Eiríkur Rögnvaldsson vakti athygli á.
Anna Hrefna Ingimundardóttir er starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um enskunotkun samtakanna sem Eiríkur Rögnvaldsson vakti athygli á. vísir

Samtök atvinnulífsins þakka Eiríki Rögnvaldssyni íslenskufræðiprófessor fyrir að minna samtökin á að láta íslenska frumútgáfu fylgja skjölum samtakanna á ensku. 

Er það gert í yfirlýsingu Samtaka atvinnulífsins vegna umfjöllunar um bréfaskrif nokkurra íslenskra samtaka innan atvinnulífsins til ráðherra á ensku. Eiríkur furðaði sig á enskunotkuninni og sagði samtökin gefa skít í íslensku með bréfinu. 

Í yfirlýsingunni segir að samtökin hafi Samtökin hafi alla tíð staðið vörð um íslenska tungu og unnið að verkefnum sem sé ætlað að styrkja íslenska máltækni. Samtökin séu stoltur stofnaðili Almannaróms miðstöðvar máltækni, sem ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda.

Draga lærdóm af umræðunni

„Á sama tíma og ein af sérstöðum Íslands felst óneitanlega í arfleifð hins ástkæra ylhýra, þá kemur eðlilega fyrir að gögn þurfi að vera skiljanleg frá okkur á erlendri grundu. Þetta er gert til hagræðis og stundum að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið sem er beinlínis í þeirri kjarnastarfsemi að vera í alþjóðasamskiptum fyrir hönd Íslands.“

Varðandi bréfaskrifin segja samtökin:

„Í þessu tilviki skrifum við bréfið á ensku, vitandi að fyrir dyrum stæðu samskipti á alþjóðlegum samstarfsvettvangi á grundvelli EES-samningsins. Innihald þess snýst um að brýna ráðherra og veita upplýsingar svo hún gæti að hagsmunum Íslands við upptöku tilskipunar sem Evrópusambandið hefur samþykkt í EES samninginn, en þær reglur sem um ræðir fela í sér kostnað upp á milljarða króna sem mun falla á íslensk fyrirtæki að óbreyttu.

Af umræðunni má þó draga þann lærdóm að ganga úr skugga um að í þeim tilfellum sem enskan er notuð þá fylgi hún alltaf íslenskri frumútgáfu, við þökkum Eiríki fyrir að minna okkur á það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×