Veður

Viðrar frábærlega til gleðigöngu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gleðigangan fer fram í blíðskaparveðri í ár.
Gleðigangan fer fram í blíðskaparveðri í ár. vísir/vilhelm

Blíðskaparveður er og verður í höfuðborginni í dag og viðrar frábærlega til gleðigöngu sem fer af stað klukkan tvö frá Hallgrímskirkju.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að hinn fallegasti sumardagur sé í vændum á vesturhelmingi landsins. Austurhelmingur landsins verði hins vegar þungbúinn með lágskýjabreiðu sem muni lítið brotna upp. Hægur vindur verður á mest öllu landinu, nema austast þar sem verður norðan strekkingur.

Hitinn fer því lítið yfir 10 stig þar sem sólar ekki nýtur en upp undir 20 stig þar sem bjartast verður.

„Á morgun er útlit fyrir að verði enn bjartara en í dag og einnig létti smám saman til fyrir austan líka. Hitinn ætti því að vera heldur hærri en í dag.“

Veðurhorfur á landinu

Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s. Skýjað á austanverðu landinu og sums staðar súld, en víða léttskýjað vestantil. Léttskýjað um meat allt land á morgun, en áfram skýjað austast. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast suðvestantil.

Á mánudag:

Hæg vestlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en víða skýjað með suðurströndinni. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast um landið norðanvert.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu og dálítil væta öðru hverju, en yfirleitt þurrt norðaustanlands. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast inn til landsins.

Á föstudag:

Útlit fyrir vaxandi norðaustanátt með rigningu, einkum austanlands og áfram hlýtt í veðri.

Á laugardag:

Austlæg átt, rigning með köflum og hlýindi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×