Innlent

Börn hafi engin not fyrir far­síma í skólanum

Árni Sæberg skrifar
Hermundur segir síma geta verið skaðvalda í grunnskólum.
Hermundur segir síma geta verið skaðvalda í grunnskólum. Stöð 2/Egill

Prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði fagnar því að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna leggi til allsherjarbann við farsímanotkun nemenda í skólum.

Greint var frá því um helgina að UNESCO, Menningarmálstofnun Sameinuðu þjóðanna, vill að snjallsímar verði alfarið bannaðir í grunnskólum. Eitt af hverju fjórum ríkjum heims bannar nú þegar notkun símanna.

Í nýrri menntamálaskýrslu UNESCO er fullyrt að snjallsímar trufli kennslu og bann við notkun þeirra í tímum myndi bæta getu og einbeitingu nemenda og draga úr einelti.

Fullyrt er að mikil notkun snjallsíma á skólatíma dragi úr námsárangri og hafi sömuleiðis neikvæð áhrif á tilfinningalegt jafnvægi barna.

Geti verið of mikil áskorun fyrir börn

Þessu kveðst Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við háskólann í Þrándheimi í Noregi fagna innilega.

„Málið er að þú þarft ekki þennan síma þinn í skólanum. Þessi sími er bara mjög sterk tölva, þannig að það er ekkert eðlilegt að krakki frá sex til kannski fjórtán ára sé með sterka tölvu í vasanum allan daginn. Og geti komist inn á hvaða síður sem hann vill. Það getur verið meiri áskorun fyrir barnið að ráða við slíkt tæki en það er í standi til,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Mikilvægt að hlusta á vísindamenn

Þá segir Hermundur að mikilvægt sé að setja vísindin í fyrsta sæti þegar kemur að menntun barna og hvetur stjórnvöld hér á landi til þess að taka mark á skýrslu Unesco, enda sé hún byggð á haldbærum og áreiðanlegum gögnum.

„Það sem maður er að sjá núna og fræðimenn eru að benda á núna er að þeir eru ekki að sjá, og þess vegna banna þeir símana, að þeir hafa ekki þetta námsgildi fyrir krakkana í skólunum. Þetta getur haft áhrif á sjálfsmyndina þeirra, að hún verði verri, þetta getur haft áhrif á andlega heilsu, skapað kvíða og önnur vandamál og þetta getur skapað svefnvanadmál, ef horft er á símana í heild.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×