Viðskipti erlent

Amazon sakað um belli­brögð með Prime-á­skriftir

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðskiptavinir Amazon skráðu sig stundum óafvitandi í áskrift að Prime en það var hægara sagt en gert að segja henni upp aftur samvæmt stefnu FTC.
Viðskiptavinir Amazon skráðu sig stundum óafvitandi í áskrift að Prime en það var hægara sagt en gert að segja henni upp aftur samvæmt stefnu FTC. AP/Gene J. Puskar

Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna (FTC) stefndi tæknirisanum Amazon fyrir að blekkja viðskiptavini sína til þess að skrá sig í áskriftarþjónustu og gera þeim erfitt fyrir að segja henni upp. Fyrirtækið hafnar ásökununum alfarið.

Amazon Prime, áskriftarþjónusta Amazon, veitir viðskiptavinum Amazon þjónustu eins og skemmri afhendingartíma gegn gjaldi. Í stefnu FTC er stórfyrirtækið sakað um að notað blekkjandi hönnun til þess að narra viðskiptavini til þess að gerast áskrifendur. Það hafi brotið lög um viðskiptahætti og lög um neytendarvernd í netverslun.

Þannig er Amazon sagt hafa gert viðskiptavinum erfitt að kaupa vörur án þess að gerast áskrifendur að Prime. Í sumum tilfellum fengu viðskiptavinir upp hnapp til þess að ganga frá kaupum án þess að þeim væri ljóst að með því að smella á hann gerðust þeir áskrifendur að Prime.

Kenndu uppsagnarferlið við langdregið umsátur um Tróju

Flókið var fyrir viðskiptavini að segja áskriftinni upp og stjórnendur Amazon drógu lappirnar eða höfnuðu breytingum sem hefðu gert það auðveldara, að því er segir í stefnunni. Innanhúss var uppsagnarferlið kallað Ilíonskviða, forngrísku ljóði um lang umsátur um Trjóju, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Amazon gabbaði og festi fólk í áframhaldandi áskrift án samþykkis þess sem olli notendum ekki aðeins angri heldur kostaði þá umtalsverða fjármuni. Þessar óheiðarlegu aðferðir sköðuðu neytendur og löghlýðin fyrirtæki,“ sagði Line Khan, forstöðumaður FTC.

Amazon segir ásakanir FTC rangar. Þvert á móti sagði Heather Layman, talskona Amazon, að viðskiptavinir „elskuðu“ Prime og að það væri bæði skýrt og einfalt að skrá sig í og úr áskrift.

Fyrr í þessum mánuði samþykkti Amazon að greiða um 25 milljónir dollara í sekt vegna ásakana um að fyrirtækið hefði brotið gegn persónuvernd barna með því að geyma gögn úr Alexu, raddstýrðum hátalara, þrátt fyrir að foreldrar hefðu óskað eftir því. Sömuleiðis féllst fyrirtækið á að greiða sekt vegna starfsmanna sem skoðuðu upptökur úr dyrabjöllumyndavélum viðskiptavina og samstarfsmanna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×