Innlent

Samningur í höfn um upp­steypu bíla­kjallara nýs Land­spítala

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Svona er fyrirhugað að svæðið líti út.
Svona er fyrirhugað að svæðið líti út. Nýr Landspítali

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG verk undirrituðu í dag samning Nýs Landspítala ohf. um uppsteypu á bílakjallara undir Sóleyjartorgi við hliðina á meðferðarkjarnanum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Nýs Landspítala. Auk þess vottuðu samninginn þær Hjördís Ýrr Skúladóttir, formaður MS félags Íslands og Sigríður Jóhannsdóttir, formaður Samtaka sykursjúkra á Íslandi. Upphæð samningsins nemur rúmum 1,3 milljörðum. 

„Það er ánægjulegt að ennþá bætist við byggingar sem eru á framkvæmdastigi í uppbyggingu við nýjan Landspítala. Þessi viðbót verður mikilvæg í heildarsamhengi því það skiptir öllu að öll þjónusta við sjúklinga og gesti sé á heimsmælikvarða og með góðri aðkomu þá er hægt að tryggja betur góða umgjörð. Þessi áfangi er hluti þeirrar vegferðar að allar byggingar hér á svæðinu myndi eina heild,“ er haft eftir Willumi.

Willum Þór Þórsson.Vísir/Einar

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala segir uppsteypu á 18.000 fermetra rannsóknarhúsi verða boðin út fljótlega. „Svo styttist í að uppsteypu meðferðarkjarnans ljúki,“ er haft eftir Gunnari.

Bílakjallarinn verður á tveimur hæðum undir Sóleyjartorgi ásamt tengigöngum sunnan Landspítala.  Kjallarinn verður staðsettur milli meðferðarkjarna og fyrirhugaðrar byggingar dag-, göngu- og legudeildar Landspítalans austan við torgið, sem er sunnan megin við Gamla Landspítalann. Verða þar um 180 bílastæði fyrir þá sem eru að sækja þjónustu eða að koma í heimsóknir. Heildarflatarmál bygginganna er áætlað 7.500 fermetrar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×