Handbolti

Varð Evrópu­meistari í hóp­fim­leikum þegar hand­bolta­ferillinn var að hefjast

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir stundaði fimleika af miklum krafti meðfram handboltanum.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir stundaði fimleika af miklum krafti meðfram handboltanum. Vísir/Vilhelm

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur verið einn albesti leikmaður Olís-deildar kvenna á tímabilinu og raðað inn mörkum fyrir ÍBV á leið liðsins að bikar- og deildarmeistaratitlum. Það var þó ekki alltaf víst að hún myndi velja handboltann.

„Ég náttúrulega var bara í öllum íþróttum þegar ég var yngri,“ sagði Hanna í seinasta hlaðvarpsþætti Kvennakastsins.

„Mamma er ungbarnasundkennari þannig að mér var bara hent út í sundlaug þegar ég var fjögurra eða fimm mánaða og hef verið þar síðan. Ég var bara þar í mínum hreyfigrunni og var svo komin í íþróttaskóla stuttu eftir það.“

„Svo hef ég verið svona sex ára þegar ég var byrjuð í handbolta, fótbolta og fimleikum og var í því bara langt fram að fermingu,“ sagði Hanna, en bætti við að hún hefði þó haldið áfram í fimleikum fram að 18 ára aldri.

Fagnaði Evrópumeistaratitli í hópfimleikum

„Ég var með unglingalandsliði Íslands bæði 2010 og 2012. Við unnum brons á Evrópumeistaramótinu 2010 og urðum svo Evrópumeistarar 2012 í hópfimleikum. Þannig ég var í því á meðan ég var að byrja minn meistaraflokksferil á Selfossi í handboltanum.“

Þá segir Hanna að valið hafi staðið á milli handbolta og fimleika.

„Mér fannst allavega mjög gaman í fimleikunum líka. Ég gat ekki valið á milli. Þetta var mjög erfitt, en þetta var orðið allt of mikið álag þannig ég varð að fara að velja þarna 18 ára. “

„Þetta eru rosalega ólíkar greinar, en ég tel að fimleikagrunnurinn sé að gefa mér mjög mikið inn í handboltann.“

„Það er allavega mjög góður grunnur þannig ég sé ekki eftir því að hafa verið svona lengi í fimleikunum. En ég var kannski aðeins of lengi upp á meiðsli og annað því ég var komin í bullandi yfirálag rétt áður en ég hætti. Ég var farin að æfa ég veit ekki hvað marga tíma á dag. Var bæði í handbolta- og fimleikaakademíu og svo að æfa með báðum meistaraflokkunum á kvöldin,“ sagði Hanna, en þáttinn í heild sinni má heyra í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×