Erlent

Prinsinn og fast­eigna­mógúllinn sem vildi steypa þýsku stjórninni

Atli Ísleifsson skrifar
Hinrik XIII í lögreglubíl eftir að hafa verið handtekinn í Frankfurt á miðvikudagsmorgun.
Hinrik XIII í lögreglubíl eftir að hafa verið handtekinn í Frankfurt á miðvikudagsmorgun. Getty

Um fátt annað hefur verið talað í Þýskalandi síðustu daga en áætlanir hreyfingar hægri öfgamanna um valdarán með því að ráðast inn í þýska þinghúsið, taka þar fólk í gíslingu, koma ríkisstjórninni frá og koma á nýrri stjórnskipan. Höfuðpaurinn er sagður maður af þýskum aðalsættum, Hinrik XIII prins.

Fréttir bárust af því fyrr í vikunni að lögregla í Þýskalandi hefði staðið fyrir umfangsmiklum, samræmdum aðgerðum víðs vegar um landið og handtekið 25 manns og gert húsleit á rúmlega 130 stöðum. Vonir höfðu staðið til að handtaka 52, en einnig voru einhverjir handteknir í Austurríki og Ítalíu.

En hver er þessi maður – prinsinn – sem er sagður hafa séð fyrir sér að kollvarpa því Þýskalandi sem við þekkjum?

Deutsche Welle segir frá því að fyrir rúmum hundrað árum hafi forfeður Hinriks XIII, prins af Reuss, haft tögl og hagldir á landsvæði sem nær að stórum hluta yfir því sem við þekkjum sem Þýringaland (þ. Thüringen).

„Kynnist manninum sem vildi verða keisari Þýskalands,“ segir Dietmar Bartsch, formaður Vinstriflokksins, Die Linke, í hæðnistón um prinsinn og deilir af honum mynd eftir að sá hafði verið handtekinn á miðvikudag. 

Viðurkenna ekki lögmæti Þýskalands

Þeir sem handteknir voru fyrr í vikunni tengjast Reichsbürger-hreyfingunni og er áætlað að liðsmenn hennar telji um 21 þúsund.

Liðsmenn hreyfingarinnar viðurkenna ekki lögmæti ríkisstjórnar landsins, þingsins og þýska sambandslýðveldisins sem varð til eftir fyrra stríð og Wilhelm II keisara var bolað frá. Vilja þeir meina að Þýskaland nútímans sé lénsríki bandamanna í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og þjóni hagsmunum þeirra.

Myndir náðust af því þegar lögreglumenn leiddu hinn 71 árs gamla Hinrik XIII á brott í handjárnum í Frankfurt síðastliðinn miðvikudag.

Hinrik ver mestum tíma sínum í Frankfurt þar sem fasteignafélag hans er með höfuðstöðvar og svo í fjallakofa sínum í Þýringalandi. Er í raun um að ræða kastala sem reistur var á nítjándu öld í nýgotneskum stíl nærri Bad Lobenstein. 

Segir í þýskum fjölmiðlum að það sé í þeim kastala þar sem hann hafi tekið á móti og fundað með liðsmönnum Reichsbürger-hreyfingarinnar. Við kofa prinsins er einnig að finna golfvöll sem kenndur er við Reuss-fjölskylduna.

Hinrik leiddur á brott.AP

Reiðilestur á ráðstefnu í Zürich 2019

Hinrik kom fram á ráðstefnu World Web Forum í Zürich í Sviss árið 2019 þar sem hann ræddi meiningar sínar um Þýskaland. 

Yfirskrift erindisins var „Hvernig elíta með blátt blóð varð að þjónum“. Í ræðunni, sem stóð í um fimmtán mínútur, sagði hann að þar sem ekki hafi verið gerður friðarsamningur við lok seinni heimsstyrjaldarinnar þá væri lagagrundvöllur hins nýja Þýskalands enginn.

Hélt hann svo áfram þar sem hann lét nokkur miður falleg orð um gyðinga falla – hvernig gyðingar í bankaheiminum hafi átt þátt í að afnema konungsveldið. Sagði hann svo að eina rökrétta skrefið í stöðunni væri að hverfa aftur til þess stjórnskipulags sem var í Þýskalandi fyrir rúmri öld þar sem keisari var við völd og sem hafi verið komið frá „gegn vilja þjóðarinnar“.

Þeir sem viðstaddir voru ræðuna lýstu þá margir vanþóknun sinni með því að yfirgáfu salinn eða þá með því að púa manninn í ræðupúltinu.

Í frétt NBC kemur fram að á árum áður hafi fólk leitað til prinsins þegar eitthvað var ekki í lagi. „Til hvers á að leita núna? Þingmanns? Á sveitarstjórnarstigi, þjóðþingi eða Evrópuþingi? Gangi þér vel!“ Í lok ræðunnar sagði hann að Þýskaland hafi í raun ekki verið fullvalda eftir seinna stríð.

Hinriki hafði verið boðið að flytja ræðuna á ráðstefnunni, sem margir leiðtogar í pólitík, viðskiptum og tæknigeiranum sækja, eftir að annar ræðumaður hafði boðað forföll á síðustu stundu.

Áhugamaður um akstursíþróttir

Hinrik XIII er giftur fyrirsætu af írönskum uppruna, Susan Doukht Jalali sem gengur nú undir nafninu Susan prinsessa, og er hann sagður mikill áhugamaður um akstursíþróttir. Hann hefur um árabil barist fyrir því að endurbætur verði unnar á grafhýsi fjölskyldu sinnar í bænum Gera.

Hinrik á fimm systkini og hafa þau öll sóst eftir bótum frá þýska ríknu fyrir að hafa tekið menningarminjar og listaverk eignarnámi frá fjölskyldunni.

Hinrik hefur einnig leitað til dómstóla og þannig reynt að endurheimta land og eignir sem hann segir rétt sem hann hafi verið borinn til. Sú barátta hefur þó engum árangri skilað og hefur hann sagt dómskerfið hafa unnið skipulega gegn sér og sínum.

Á síðustu árum á hann svo að hafa unnið að því að koma upp hreyfingu með það að markmiði að steypa þýsku stjórninni. Í hreyfingunni hafi verið að finna fyrrverandi og núverandi hermenn, sumir háttsettir, og lögreglumenn. Í hópi hinna handteknu fyrr í vikunni var einnig að finna fyrrverandi dómara og fyrrverandi þingmann Valkosts fyrir Þýskalandi, AfD.

Í þýskum fjölmiðlum kemur fram að fjölskylda Hinriks hafi snúið baki við honum síðasta sumar. Var haft eftir talsmanni Reuss-fjölskyldunnar nú að Hinrik XIII væri ruglaður maður gefinn fyrir varasamar samsæriskenningar. Fjölskyldan hafi hins vegar ekki haft hugmynd um að Hinrik væri höfuðpaurinn í hreyfingu hægri öfgamanna.

Hinrik XIII yrði þjóðhöfðinginn

Saga Reuss-ættarinnar nær um sjö hundruð ár aftur í tímann. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, þegar fyrsta lýðræðislega stjórnarskrá Þýskalands tók gildi, var konungsdæmið afnumið, sem og sérstök forréttindi aðalsmanna. Þessi staðreynd virðist hafa staðið sérstaklega í prinsinum. 

Bæði karlar og konur voru í hópi hinna handteknu fyrr í vikunni og eru flestir þýskir ríkisborgarar. Eru þau sögð hafa teiknað upp hvernig þau sæju fyrir sér stjórnskipan Þýskalands þegar búið væri að steypa stjórninni. Í þeirri stjórnskipan yrði Hinrik þjóðhöfðingi – keisarinn.

Í hópi hinna handteknu er rússnesk kona, Vitalia B. sem er sökuð um að hafa haft milligöngu um tengsl milli hreyfingarinnar og fulltrúa rússneskra stjórnvalda. Sendiráð Rússa í Berlín neita því þó að tengjast á nokkurn hátt Vitaliu.


Tengdar fréttir

Þjóðverjar búast við fleiri handtökum

Lögregluþjónar víðsvegar um Þýskaland leita nú manna og kvenna sem talin eru hafa komið að ráðabruggi um að taka þingmenn í gíslingu og mynda nýja ríkisstjórn þar í landi. Minnst 25 voru handteknir vegna hinnar meintu valdaránstilraunar en þar á meðal er maður sem kallar sig prins og ætlaði að taka völdin og fyrrverandi þingmaður og dómari.

Vildu koma prins til valda í Þýskalandi

Fólkið sem handtekið var í Þýskalandi í morgun og er grunað um skipulagningu valdaráns ætlaði að reyna að koma manni úr gamalla þýskri konungsætt til valda. Sá heitir Hinrik XIII P.R. en annar maður sem heitir Ruediger v.P. átti að leiða herafla hins nýja Þýskalands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×