Viðskipti innlent

„Alveg hræðilegur“ leiðréttingarbúnaður Apple

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjálfvirkur leiðréttingarbúnaður Apple virkar oft ekki sem skyldi, eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Sjálfvirkur leiðréttingarbúnaður Apple virkar oft ekki sem skyldi, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Rúnar Vilberg

Sjálfvirkur leiðréttingarbúnaður Apple fyrir íslensku er hörmulegur og með ólíkindum að einhver hafi fengið borgað fyrir að hanna hann, að mati hugbúnaðarhönnuðar. Fyrirtækið virðist ekki nota neinar tölfræðiupplýsingar sem til eru um íslenskan texta, þrátt fyrir vitneskju um þær.

Við þekkjum það flest sem notum iphone að síminn tekur stundum fram fyrir hendurnar á okkur í rituðum samskiptum. „Ég er kominn“ getur til dæmis orðið „ég er kíminn“ eða, það sem verra er, „ég er liminn“.

Og í meðfylgjandi frétt sjáum við fleiri dæmi, sem margir kannast eflaust við. Kona verður að Kína, konan að Krónan, borða að virða og morgun að þörfum. Allt orð sem skrifuð eru rétt - en sjálfvirki leiðréttingarbúnaðurinn ákveður að hljóti að vera röng.

Vilhjálmur Þorsteinsson framkvæmdastjóri máltæknifyrirtækisins Miðeindar segir hugbúnaðar- og máltæknifólk á Íslandi furða sig á því hversu lélegur búnaður Apple er.

„Hann er alveg sérstaklega vondur og það er eins og hann sé ekki byggður á neinni tölfræði um íslenskan texta, sem er skrýtið því slík gögn eru alveg til og þau eru ókeypis og þau eru fyrirliggjandi. Og Apple veit reyndar alveg af því.“

Vilhjálmur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Miðeindar.Vísir/arnar

Yfirleitt sé svona sjálfvirkur leiðréttingarbúnaður einmitt byggður á tölfræði sem safnað er úr stórum textum og búnaðurinn noti til að spá fyrir um næsta orð í orðaröð eða rétta stafsetningu. En ekki Apple.

„Þessar útskiptingar sem þessi hugbúnaður stingur upp á eru oft bara furðulegar, eins og fólk þekkir,“ segir Vilhjálmur.

Vonar að Apple heyri af óánægjunni

Vilhjálmur var í íslenskri sendinefnd sem fundaði með tæknirisunum Apple, Microsoft, Amazon og Facebook vestanhafs í maí síðastliðnum um framtíð íslenskunnar. Fundurinn gefi tilefni til bjartsýni.

„Þau vilja hafa jákvæða stefnu á þessu sviði og vilja styðja við minni tungumál heimsins og vilja leita til hvers tungumálasvæðis fyrir sig um aðstoð og það er það sem við höfum verið að bjóða.“

En ertu bjartsýnn á að Apple rífi sig í gang, bæti þennan búnað? 

„Ég vona að þau heyri af þessari óánægju. Það er eiginlega með ólíkindum að þau hafi borgað einhverjum peninga til að skrifa þennan leiðréttingarhugbúnað eins og hann er. Því hann er alveg hræðilegur,“ segir Vilhjálmur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×