Fótbolti

Þorsteinn hálfdapur eftir leik en vill að Frakkar vinni Belga í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson hefur enn ekki tapað leik sem þjálfari á stórmóti. Hann var samt ekki sáttur með úrslit kvöldsins.
Þorsteinn Halldórsson hefur enn ekki tapað leik sem þjálfari á stórmóti. Hann var samt ekki sáttur með úrslit kvöldsins. Vísir/Vilhelm

Landsliðsþjálfarinn viðurkenndi að íslenska liðið hafi ekki spilað sitt besta leik í jafnteflinu á móti Ítalíu á EM í Englandi í kvöld.

„Ég veit það eiginlega ekki. Ég er hálfdapur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson á blaðamannafundi í kvöld aðspurður um hvernig honum liði eftir 1-1 jafntefli, annað jafntefli íslenska liðsins í röð á Evrópumótinu.

„Við lögðu allt í þetta og reyndum allt sem við gátum. Við vorum í vandræðum á köflum en þegar þú ert í vandræðum þá þarftu bara að verjast og reyna að verja markið þitt. Við fengum náttúrulega alveg dauðafæri í þessum leik líka,“ sagði Þorsteinn.

„Auðvitað vildum við vinna og maður er alltaf svekktur eftir að hafa ekki uppskorið eins og maður ætlaði sér. Ég verð svekktur í kvöld en verð örugglega glaður á morgun aftur,“ sagði Þorsteinn.

Hvað fannst honum breytast þegar Ítalir tóku yfir leikinn?

„Við héldum ekki nógu mikið í boltann og þorðum ekki að spila honum. Það var smá æsingur í okkur og við höfðum stundum meira á boltanum en við héldum. Það var kannski eitthvað stress í okkur að við þyrftum að gera allt einn tveir og þrír. Þær voru ekki endilega að pressa neitt hátt og gáfu okkur tíma. Mér fannst vera pláss til að spila,“ sagði Þorsteinn.

„Svona er þetta bara. Við höfum alveg spilað betur og ég geri mér grein fyrir því að þetta var ekki besti leikurinn okkar. Við erum að spila í úrslitakeppni EM, á móti góðum liðum og þetta eru allt erfiðir andstæðingar,“ sagði Þorsteinn.

„Þetta stig getur skipt okkur gríðarlega miklu máli. Við bara vonum það að Frakkar vinni á eftir og þá er þetta áfram í okkar höndum,“ sagði Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×