Fótbolti

Elísa inn í byrjunarliðið fyrir Sif

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hér má sjá byrjunarliðið gegn Belgum en gegn Ítölum kemur Elísa Viðarsdóttir inn fyrir Sif Atladóttur.
Hér má sjá byrjunarliðið gegn Belgum en gegn Ítölum kemur Elísa Viðarsdóttir inn fyrir Sif Atladóttur. Vísir/Vilhelm

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari gerir eina breytingu á byrjunarliði Íslands sem mætir Ítalíu í öðrum leik liðsins á Evrópumótinu á Englandi klukkan 16:00. Elísa Viðarsdóttir kemur inn í liðið fyrir Sif Atladóttur.

Ísland gerði 1-1 jafntefli í fyrsta leik liðsins gegn Belgíu og lítið annað en sigur kemur til greina í dag ætli liðið sér að komast upp úr riðlinum og í 8-liða úrslit mótsins.

Fyrir leikinn í dag gerir Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari eina breytingu á byrjunarliðinu frá því í fyrsta leiknum. Elísa Viðarsdóttir kemur inn í hægri bakvarðarstöðuna fyrir Sif Atladóttur. Elísa myndar því varnarlínu með Glódísi Perlu Viggósdóttur, Guðrúnu Arnardóttur og Hallberu Gísladóttir. Sandra Sigurðardóttir stendur síðan í markinu þar fyrir aftan.

Á miðjunni verða Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði en ýmsar vangaveltur hafa verið í aðdraganda leiksins hvort Karólína Lea Vilhjálmsdóttir yrði færð af kantinum og niður á miðjuna. Þorsteinn heldur sig hins vegar við sömu miðjumenn og gegn Belgum. 

Sóknarlínan er einnig sú sama. Karólína Lea og Sveindís Jane Jónsdóttir byrja á sitthvorum kantinum og Berglind Björg Þorvaldsdóttir, markaskorari Íslands gegn Belgum, byrjar í fremstu víglínu.

Leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×