Erlent

Samkomulag í höfn um útflutning kornvöru

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Milljónir tonna af kornvöru sitja föst í birgðageymslum Úkraínu vegna átkanna í landinu.
Milljónir tonna af kornvöru sitja föst í birgðageymslum Úkraínu vegna átkanna í landinu. epa/Sergei Ilnitsky

Stjórnvöld í Tyrklandi segja samkomulag hafa náðst við Úkraínu, Rússland og Sameinuðu þjóðirnar um útflutning kornvöru frá Úkraínu. Að sögn varnarmálaráðherrans Hulusi Akar verður samkomulagið undirritað í næstu viku.

Það mun meðal annars fela í sér sameiginlegt eftirlit í höfnum Úkraínu og þá skuldbinda Tyrkir sig til að tryggja öryggi sjóleiða flutningsskipa. Tyrkir munu einnig koma á fót samhæfingarstöð um útflutninginn, í samvinnu við Úkraínumenn, Rússa og Sameinuðu þjóðirnar.

Áhyggjur hafa verið uppi um yfirvofandi fæðuskort og hungursneyð víða um heim vegna rofs á útflutningi kornvöru frá Úkraínu vegna innrásar Rússa en Úkraínu og Rússland, sem nú sætir hörðum refsiaðgerðum, eru meðal stærstu útflutningsríkja korns í heiminum.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í daglegu ávarpi sínu í gærkvöldi að um væri að ræða marktækt skref í átt að því að endurhefja útflutninginn og að hann væri þakklátur Tyrkjum og Sameinuðu þjóðunum fyrir aðkomu þeirra að málinu.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði sömuleiðis um mikilvægt skref að ræða en varaði við því að enn væri eftir að útfæra ákveðin tæknileg atriði. Samkomulagið sýndi að Úkraínumenn og Rússar gætu talað saman en að friður væri langt handan seilingar.

Interfax hafði eftir fulltrúa rússneska utanríkisráðuneytisins að Rússar myndu vilja koma að öllu eftirliti með flutningunum til að koma í veg fyrir vopnasmygl. Úkraínumenn hafa sakað Rússa um þjófnað á uppskeru landsins, sem hafi meðal annars verið flutt til Tyrklands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×