Fótbolti

Valur bætir í flóruna af framherjum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Heimir Guðjónsson er kominn með fleiri möguleika fram á við. 
Heimir Guðjónsson er kominn með fleiri möguleika fram á við.  Vísir/Hulda Margrét

Karlalið Vals í fótbolta hefur fengið nýjan framherja til liðs við sig. Um að ræða danska leikmanninn Frederik Ihler en hann kemur frá AGF sem leikur í dönsku úrvalsdeildinni.

Ihler hefur leikið einn leik með aðalliði AGF en hann hefur skorað 20 mörk í 56 leikjum fyrir U-19 og varalið AGF. 

Þessi 19 ára leikmaður mun leika sem lánsmaður með Valsliðinu út yfirstandandi keppnistímabil. 

Meiðsli hafa herjað á framlínu Vals í sumar en Patrick Pedersen hefur verið að glíma við meiðsli líkt og Aron Jóhannsson. Þá er Guðmundur Andri Tryggvason á leið í tveggja leikja bann. 

Valur, sem situr í fimmta sæti Bestu deildarinnar með 20 stig eftir 11 leiki fær Keflavík í heimsókn á Origo-völlinn að Hlíðarenda annað kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×