Klinkið

Gróðurhúsið VAXA ræður Bergþóru frá tískuhúsinu Louis Vuitton

Ritstjórn Innherja skrifar
Vaxa byrjaði að rækta í lok árs 2018 og fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019.
Vaxa byrjaði að rækta í lok árs 2018 og fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019. Ljósmynd/VAXA

Hátæknigróðurhúsið VAXA hefur ráðið Bergþóru Bergsdóttur í viðskiptaþróun fyrirtækisins en hún kemur frá tískuhúsinu Louis Vuitton.

Bergþóra hefur starfað á skrifstofu Louis Vuitton í New York í tæp fimm ár, nú síðast sem yfirmaður á sviði dreifingar og framleiðslukeðja.

Eftir ráðninguna vinna ellefu manns við viðskiptaþróun hjá Vaxa – starfsmenn fyrirtækisins eru alls 25 talsins – en deildinni var komið á fót síðasta sumar þegar Andri Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Fossa markaða, var ráðinn til hátæknigróðurhússins.

Vaxa stundar svokallaðan lóðréttan landbúnað þar sem ræktað er í hillum. Stærsti munurinn á lóðréttri og hefðbundinni ræktun, hvort sem um er að ræða gróðurhús eða úti á akri, er að allt sem viðkemur ræktunarferlinu er undir stjórn.

Vaxa nýtir til að mynda ekki sólarljós og rýminu er hita- og rakastýrt sem þýðir að framboð og gæði afurða eru fyrirsjáanleg. Vaxa byrjaði að rækta í lok árs 2018 og fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×