Liverpool áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar

Atli Arason skrifar
Tsimikas lagði upp tvö mörk í leiknum.
Tsimikas lagði upp tvö mörk í leiknum. Getty Images

Liverpool er komið áfram í undanúrslit Meistaradeilarinnar eftir 3-3 jafntefli í fjörugum leik á Anfield í kvöld. Liverpool vann einvígið samanlagt 6-4 og mætir Villareal í undanúrslitum.

Ibrahima Konate kom Liverpool í forystu á 21. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu Konstantinos Tsimikas en aðeins 10 mínútum síðar var Goncalo Ramos búinn að jafna leikinn fyrir Benfica. Eftir tveggja mínútna endurskoðun í VARsjánni var markið dæmt gott og gilt. Hálfleikstölur voru 1-1.

Liverpool komst aftur yfir á 55. mínútu eftir flott samspil sem endar á því að Jota sendir boltann á Firminio sem skorar í autt netið. Einvíginu var svo gott sem lokið tíu mínútum síðar þegar Firminio skorar aftur, í þetta sinn eftir fallega fyrirgjöf Tsimikas úr aukaspyrnu.

Liverpool gat því leyft sér að taka fótinn af bensíngjöfinni sem varð til þess að Roman Yaremchuk skoraði annað mark Benfica í leiknum á 73. mínútu leiksins en aftur þurfti að skoða markið í VARsjánni áður en það fékk að standa. 

Það sama var upp á teningnum þegar Darwin Nunez skorar síðasta mark leiksins. Nunez var fyrst flaggaður fyrir rangstöðu en rangstaðan var síðar dregin til baka af myndbandsdómaranum. Meira var ekki skorað og því fer Liverpool áfram í undanúrslitin eftir samanlagðan 6-4 sigur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira