Fótbolti

Rodman komin á blað með lands­liðinu: Sjáðu markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Trinity Rodman föðmuð innilega af samherja sínum eftir markið í nótt.
Trinity Rodman föðmuð innilega af samherja sínum eftir markið í nótt. Tim Nwachukwu/Getty Images

Trinity Rodman skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í nótt er Bandaríkin unnu þægilegan 9-0 sigur á Úsbekistan í vináttulandsleik. Trinity er dóttir körfuboltakappans fyrrverandi Dennis Rodman. 

Hún hefur þó skapað sér sitt eigið nafn og er ein efnilegasta knattspyrnukona heims í dag.

Trinity hefur verið í sviðsljósinu síðan hún var valin önnur í nýliðavali NWSL-deildarinnar í janúar á síðasta ári. Hún samdi við Washington Spirit og hefur uppgangur hennar verið hreint út sagt ótrúlegur síðan. Trinity var valin nýliði ársins að loknu síðasta tímabili og þá varð hún fyrst allra til að gera samning upp á milljón Bandaríkjadali.

Nú hefur hin 19 ára gamla Trinity bætt enn einni rósinni við í hnappagatið. Skoraði hún sitt fyrsta landsliðsmark í nótt. Mótherjinn hefði getað verið sterkari en að því er ekki spurt. Eftir að byrja leikinn á bekknum kom Trinity inn á þegar síðari hálfleikur hófst.

Um miðbik síðari hálfleiks hafði hún svo skorað sitt fyrsta landsliðsmark og sjöunda mark Bandaríkjanna. Heimaliðið bætti við tveimur mörkum áður en leiknum lauk og vann eins og áður sagði 9-0 sigur.

Catarina Macario og Rose Lavelle skoruðu tvö mörk hvor. Þær Mallory Pugh, Margaret Purce og Ashley Sanchez skoruðu allar eitt mark hver líkt og Rodman. Þá varð Kamila Zaripova fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Trinity ætti því að mæta með sjálfstraustið í botni er NWSL-deildin í Bandaríkjunum hefst á nýjan leik undir lok mánaðarins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×