Fótbolti

Finnur fyrir auknu trausti: „Steini þekkir mig sem leikmann og veit hvað ég get gert“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir ræddi við fjölmiðlamenn á hótelinu sem landsliðið dvelur á í Prag.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir ræddi við fjölmiðlamenn á hótelinu sem landsliðið dvelur á í Prag. vísir/bjarni

Berglind Björg Þorvaldsdóttir var nokkuð róleg við markaskorun í upphafi landsliðsferilsins en hefur skorað sex mörk fyrir landsliðið síðasta eina og hálfa árið. Eitt þeirra kom í 0-5 útisigrinum á Hvíta-Rússlandi í undankeppni HM á fimmtudaginn.

„Ég þakka liðsfélögum mínum. Þeir koma manni í góðar stöður og svo þarf maður að pota boltanum yfir línuna. Þetta er yfirleitt ekki flókið,“ sagði Berglind í samtali við Vísi á hóteli íslenska liðsins í Prag í gær.

Hún þakkar góða frammistöðu með landsliðinu meðal annars auknu trausti frá landsliðsþjálfaranum Þorsteini Halldórssyni sem þjálfaði hana einnig hjá Breiðabliki.

„Ég get alveg sagt það. Steini þekkir mig sem leikmann og veit hvað ég get gert. Ég gef mig alla í verkefnið. Það er geggjað að hafa fengið traustið, nýtt það og skora mörk fyrir Ísland,“ sagði Berglind.

Klippa: Viðtal við Berglindi Björgu

Fyrir tímabilið gekk hún í raðir Noregsmeistara Brann. Hún kann afar vel við sig hjá nýja félaginu.

„Ég er gríðarlega ánægð þarna og ánægð með þetta skref. Norski boltinn er á mikilli uppleið og deildin er góð. Við erum að fara í Meistaradeild Evrópu í haust og það er gríðarlega spennandi,“ sagði Berglind.

Að hennar sögn er metnaður forráðamanna Brann mikill. „Þær unnu deildina í fyrra en töpuðu í bikarúrslitum. Markmiðið er að vinna tvöfalt og komast eins langt og hægt er í Meistaradeildinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×