Fótbolti

Ís­lensku strákarnir náðu í gott stig í Portúgal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjólfur Darri Willumsson skoraði mark Íslands í kvöld.
Brynjólfur Darri Willumsson skoraði mark Íslands í kvöld. PETER ZADOR/GETTY IMAGES

Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri gerði 1-1 jafntefli gegn ógnarsterku liði Portúgals ytra í undankeppni EM 2023 í kvöld. 

Íslenska landsliðið byrjaði vel og komst yfir á 17. mínútu leiksins, Brynjólfur DarriWillumsson með markið eftir frábæran undirbúning Valgeirs Lunddal Friðrikssonar. 

Sá síðarnefndi fékk boltann fyrir utan teig og tók á rás í átt að varnarmúr Portúgals. Hann fór framhjá einum, tveimur, þremur og náði í kjölfarið að koma boltanum fyrir markið.

Markvörður Portúgals náði ekki að stöðva fyrirgjöfina og Brynjólfur Darri þrumaði boltanum í netið. Staðan 1-0 Íslandi í vil.

Heimamönnum tókst hins vegar að jafna metin fyrir lok fyrri hálfleiks, Gonçalo Ramos – leikmaður Benfica – með markið og staðan 1-1 í hálfleik.

Heimamenn sóttu án afláts í síðari hálfleik en tókst ekki að brjóta sterkbyggðan varnarmúr íslenska liðsins niður. Í þau fáu skipti sem leikmenn Portúgals komust nálægt marki þá sá Hákon Rafn Valdimarsson við þeim.

Lokatölur 1-1 en fyrir leik kvöldsins hafði Portúgal unnið alla fimm leiki sína í undankeppninni og skorað 20 mörk án þess að fá á sig eitt. Virkilega sterkt stig hjá íslensku strákunum sem eru nú með átta stig eftir sex leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×