Fótbolti

Sjáðu magnaðan Bale, byssukúluskalla Jota, sigurmark Svía og Ítali falla úr leik

Sindri Sverrisson skrifar
Gareth Bale skoraði sturlað aukaspyrnumark og bætti við öðru í 2-1 sigri Wales gegn Austurríki.
Gareth Bale skoraði sturlað aukaspyrnumark og bætti við öðru í 2-1 sigri Wales gegn Austurríki. Getty

Dramatíkin var allsráðandi í umspilinu um sæti á HM karla í fótbolta í gærkvöld. Mikið var fagnað í Svíþjóð, Gareth Bale spilaði eins og ofurhetja fyrir Wales, Portúgal sló út Tyrkland og Evrópumeistarar Ítalíu féllu óvænt úr leik.

Hér að neðan má sjá öll mörkin og helstu atvik úr leikjunum í gærkvöld. Sigurmarkið úr framlengdum leik Svía og Tékka er neðst í greininni.

Klippa: Markaþáttur HM-umspilsins

Hinn 32 ára gamli Gareth Bale var hetja kvöldsins en hann skoraði stórkostlegt aukaspyrnumark og annað laglegt mark fyrir Wales í 2-1 sigri gegn Austurríki, eftir að hafa nánast ekkert spilað fyrir Real Madrid í vetur.

Fleiri hetjur áttu þó sviðið í gær. Aleksandar Trajkovski skoraði til að mynda sigurmark í uppbótartíma fyrir Norður-Makedóníu á heimavelli Evrópumeistara Ítalíu, í 1-0 sigri.

Portúgal vann Tyrkland 3-1 en Tyrkir fengu tækifæri til að jafna metin í 2-2 á 85. mínútu þegar þeir fengu vítaspyrnu en Burak Yilmaz skaut yfir úr henni. Otávio, Diogo Jota og Matheus Nunes skoruðu mörk Portúgala en Yilmaz mark Tyrkja.

Það var svo Robin Quaison sem skoraði sigurmark Svía í seinni hálfleik framlengingar gegn Tékkum, eftir laglegan samleik, eins og sjá má hér að neðan.

Klippa: Sigurmark Svía gegn Tékkum

Úrslitaleikir á þriðjudag

Leikirnir voru í undanúrslitum umspilsins. Í úrslitaleikjunum á þriðjudag mætast Portúgal og Norður-Makedónía, og Svíþjóð og Pólland en Pólverjar komust beint í úrslitaleikinn þar sem að þeir áttu að mæta Rússum í undanúrslitum. Rússar eru bannaðir frá alþjóðlegum fótbolta vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Úrslitin í síðasta umspilinu ráðast ekki fyrr en í júní því undanúrslitaleik Skotlands og Úkraínu var frestað vegna innrásar Rússa. Sigurliðið úr leik Skotlands og Úkraínu mætir Wales.


Tengdar fréttir

Segir að vítaklúðrin muni ásækja sig ævina á enda

Evrópumeistarar Ítalíu verða ekki meðal þátttökuliða á HM í Katar. Þetta var ljóst eftir 0-1 tap fyrir Norður-Makedóníu í umspili í gær. Jorginho, leikmaður Chelsea, tók tapið sérstaklega nærri sér.

Bale skaut Walesverjum í úrslit umspilsins

Gareth Bale skoraði bæði mörk Wales er liðið vann 2-1 sigur gegn Austurríki og tryggði sér um leið hreinan úrslitaleik um sæti á HM í Katar.

Norður-Makedónía gerði út um HM draum Evrópumeistaranna

Norður-Makedónía gerði sér lítið fyrir og vann óvæntan 1-0 sigur gegn Ítölum í undanúrslitum umspilsins um laust sæti á HM í Katar í kvöld. Evrópumeistararnir eru því úr leik og verða ekki með á HM í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×