Fótbolti

Endaði lands­liðs­ferillinn sinn á því að klikka á víta­spyrnu á úr­slita­stundu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Burak Yilmaz eftir vítaklúðrið sitt í Portúgal í gær.
Burak Yilmaz eftir vítaklúðrið sitt í Portúgal í gær. AP/Luis Vieira

Það var enginn draumaendir fyrir tyrknesku knattspyrnugoðsögnina Burak Yilmaz í gær í umspili fyrir HM í Katar.

Yilmaz átti þá möguleika á að tryggja Tyrkjum framlengingu í umspilsleiknum á móti Portúgal þegar Tyrkland fékk víti í stöðunni 2-1 undir lok leiks. Hann klúðraði hins vegar vítaspyrnunni, skaut lang yfir markið. Portúgalar enduðu á því að skora þriðja markið í framhaldinu og tryggja sér sæti í hreinum úrslitaleik um laust sæti á HM í nóvember.

Burak Yilmaz var reyndasti leikmaður tyrkneska landsliðsins og hefur verið landsliðsmaður í sextán ár. Hann var í áfalli í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn.

„Ég er í sjokki að hafa klúðrað þessu víti. Þjóðin okkar er í áfalli. Mér þykir þetta svo leiðinlegt. Þetta var HM-möguleikinn minn en nú er þetta búið,“ sagði Burak Yilmaz eftir leik. Hann hafði minnkað muninn í 2-1 með marki á 55. mínútu.

„Ég vildi ekki hætta eftir svona leik en ég tel að það sé rétt fyrir alla að halda ekki áfram með landsliðinu, sagði Burak.

„Þjóðin þarf nú að leyfa yngri mönnum að taka við keflinu. Nú þarf ný kynslóð að koma inn og byggja upp nýtt lið. Það er það rétta í stöðunni. Ákvörðun mín tengist ekki vonbrigðunum með vítaspyrnuna,“ sagði Burak sem er að leika með franska liðinu Lille.

Hann lék alls 77 landsleiki og skoraði í þeim 31 mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×